150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

fiskveiðistjórnarkerfið.

[11:23]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Þessa dagana er mikil umræða um fiskveiðar Íslendinga erlendis og kvótakerfinu blandað inn í þá umræðu. Hvað er kvótakerfið, íslenska fiskveiðistjórnarkerfið? Þegar spurt er og kvótakerfið rætt leggja ýmsir mismunandi skilning í það kerfi sem hefur verið við lýði, þó í breyttri mynd, síðan 1983.

Það mætti segja að kvótakerfið skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta lagi heildarafli, hve mikið má veiða af hverri tegund. Í öðru lagi úthlutun aflamarks, hverjir fá úthlutað kvóta. Og í þriðja lagi veiðigjöld, hve mikið á að greiða fyrir að veiða hvert tonn af fiski. Um öll þessi atriði mætti segja að deilur hafi staðið á hverjum tímapunkti. Lengi vel voru miklar deilur um hver heildarafli ætti að vera. Í dag eru þó flestir sammála um að fara eftir ráðgjöf Hafró, enda eru vísindin og vísindamenn Hafró sannarlega hæfastir til þess að mæla stofnstærðir og gefa ráð um heildarafla. Það er hins vegar alltaf ráðherra sem tekur endanlega ákvörðun og síðustu ár hefur hann ætíð fylgt þessari ráðgjöf. Úthlutun aflamarks í árdaga kvótakerfisins var miðuð við veiðireynslu þriggja ára á undan sem var grunnur af aflamarki. Að vísu stóð mönnum til boða að fara í svokallað sóknarmark sem margir nýttu sér en það var aflagt og síðar var sóknarmarkið að aflamarki.

Veiðigjöld eru ákveðin af stjórnvöldum og í upphafi kvótakerfisins voru þau engin, enda var sjávarútvegur í miklum kröggum, a.m.k. fram yfir 1995. Með samlegðaráhrifum hafa sjávarútvegsfyrirtæki náð að rétta úr kútnum og skila miklum hagnaði, mörg hver, og eru blómleg. Hér er deiluefnið hvert veiðigjaldið á að vera fyrir aðgang að auðlindinni sem enginn deilir um að sé í þjóðareigu. Það er öllum ljóst að gjaldið kemur misjafnlega við útgerðir og þar hafa margir þættir áhrif.