150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

fiskveiðistjórnarkerfið.

[11:32]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Í 2. lið sjávarútvegsstefnu Pírata frá 2015 er sagt alveg skýrt, með leyfi forseta:

„Íslenska ríkið, fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar, skal bjóða aflaheimildir upp til leigu á opnum markaði og skal leigugjaldið renna í ríkissjóð og skulu öll úrslit uppboða vera opinberar upplýsingar.“

Til viðbótar eru svo frjálsar handfæraveiðar. Þetta þýðir að ef Píratar komast í ríkisstjórn munum við stíga skref í þessa átt. Ef við förum í ríkisstjórn með Viðreisn og Samfylkingu, sem hafa mjög sambærilega stefnu um að færa sjávarauðlindina aftur til þjóðarinnar, þá — og að ég held þá aðeins — verður hægt að koma sjávarauðlindinni loks aftur til þjóðarinnar. Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Miðflokkur munu ekki gera það. Vinstri græn gera það ekki óstudd því að þau voru með ákvæði um að setja þriðjung sjávarauðlindarinnar á markað fyrir kosningarnar 2016, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, en síðan var það skyndilega horfið fyrir kosningarnar 2017, kannski til að gera sambúðina við Sjálfstæðisflokkinn auðveldari. Þeir sem efast um þetta geta fundið gömlu stefnu Vinstri grænna á vefsíðunni archive.org, í því sem er kallað „Wayback Machine“, en hún afritar reglulega internetið og vefsíður þess, m.a. stefnu Vinstri grænna hvað þetta varðar.

Það eru sífellt tækifæri til að setja tegundir á uppboð og það er hægt að gera það núna með grásleppuna, það hefði verið hægt að gera það með makrílinn, þó ekki nema 5%. Það myndi standast stjórnarskrá eins og hefur komið fram í máli Hæstaréttar nýlega og í máli innan atvinnuveganefndar þegar var verið að tala um kvótasetningu makríls. Þeir sem vilja sjávarauðlindina aftur til þjóðarinnar þurfa að kjósa flokka sem vilja sjávarauðlindina aftur til þjóðarinnar. Píratar hafa frá 2015 verið með skýra stefnu um að færa sjávarauðlindina aftur til þjóðarinnar.