150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

fiskveiðistjórnarkerfið.

[11:43]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Um 1990 var svokallað frjálst framsal gert leyfilegt. Þá var hægt að færa heimildir á milli skipa og útgerða sem leiddi til hagræðingar og fækkunar skipa. Gallinn hins vegar við þessa hagræðingu var að við láréttan samruna fyrirtækja var kvótinn veðsettur. Hér liggur meginvandinn. Flestir þeir sem eiga aflamark í dag hafa keypt það en þeir sem fengu aflamarki úthlutað fyrir 36 eða 37 árum hafa selt frá sér heimildir. Þetta þýðir ekki endilega að þeir sem hafa heimildir í dag sé í slæmum málum. Þeir hafa hins vegar þurft að finna allar leiðir til þess að hámarka verðmæti sín, hvort heldur sem er með betri nýtingu, betri veiðum eða betri markaðssetningu.

Þegar fyrirtækjum gengur vel og þau greiða út arð skapast oft umræður um auðlindina og hvert eðlilegt gjald af henni ætti að vera. Slíka umræðu þarf að taka af skynsemi og vega og meta heildaráhrif án æsings. Tilhneigingin er nefnilega sú að almenningur er æstur upp og öllu snúið á haus, stjórnarskránni meira að segja blandað inn í umræðuna. Ekkert skiptir fyrirtæki eins miklu máli og stöðugleiki og fyrirsjáanleiki. Önnur atriði eins og bætt tækni eru líka mikilvæg.

Að lokum um 12% hámark eignarhlutar fyrirtækja í aflahlutdeild. Þar sem túlkun á skyldum og óskyldum eignaraðilum innan fyrirtækja veldur ágreiningi og fleira um þetta atriði skora ég á sjávarútvegsráðherra að leita allra leiða til að koma þeim málum á hreint svo almenningur trúi því að þetta 12% hámark virki. Það væri ágætisbyrjun á þeirri vegferð að ná einhvers konar sátt um fiskveiðistjórnarkerfið.