150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

fiskveiðistjórnarkerfið.

[11:45]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Hér hefur ýmislegt gott verið sagt um fiskveiðistjórnarkerfið, bæði það sem er við lýði og ýmsar hugmyndir sem fólk hefur um að breyta því, sem er vel. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir fór ágætlega yfir áherslur okkar Vinstri grænna sérstaklega þegar kemur að byggðamálum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum og ég ætla ekki að endurtaka það hér. Mig langar að segja frá þeirri persónulegu skoðun minni þegar kemur að því sem hér hefur aðeins verið nefnt, sem er kvótaþakið, og ég hef svo sem ekki legið á henni en ætla að nýta þetta tækifæri til að koma henni enn á framfæri, að ég tel nauðsynlegt að það fari fram ítarleg skoðun á því hvort 12% sé rétt tala. Sjálfur held ég að sú skoðun gæti leitt í ljós að skynsamlegt væri að lækka þá tölu niður í 10%, svo ég nefni eitthvað út í loftið, ekki sem tillögu heldur eitthvað sem ætti að meta áhrifin af ef gert yrði. En það er ánægjulegt að verið sé að vinna í að herða reglur um skilgreiningar á tengdum aðilum.

Forseti. Mig langar að koma inn á einn þátt sem ekki hefur farið mjög hátt í þessari umræðu. Það eru loftslagsmálin. Það er nánast hvergi í samfélaginu þar sem við erum betur í stakk búin til að setja skilyrði í loftslagsmálum en einmitt í sjávarútvegsmálum, í gegnum fiskveiðistjórnarkerfið. Þar sem einkaaðilar fá aðgang að sameiginlegri auðlind landsmanna er mjög auðvelt að binda við þann aðgang mjög sterkar kröfur í loftslagsmálum. Ég hef flutt um þetta fyrirspurnir og átt orðastað við m.a. hæstv. ráðherra málaflokksins, hæstv. fjármálaráðherra. Af hverju gerum við það ekki ef við meinum það sem við segjum stundum þegar við tölum um loftslagsmál, að krefjast þess að sókn í sameiginlega auðlind verði algerlega kolefnishlutlaus? Það ber að taka það fram að sjávarútvegurinn hefur staðið sig ágætlega en við þurfum öll að gera betur. Þetta væri fyrsta skref í átt til þess.