150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

fiskveiðistjórnarkerfið.

[11:47]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Virði aflaheimilda á Íslandi hefur verið metið á 1.000 milljarða kr. Frú forseti. 1.000 milljarðar kr. Hugsið aðeins um þá tölu. Samkvæmt lögum eru fiskstofnarnir allir í sameiginlegri eigu þjóðarinnar. Einstök fyrirtæki eða fjölskyldur eiga ekki þessa auðlind, bara alls ekki. Þetta er skýrt í lögum. Þess vegna er það gjörsamlega galið að við höfum stjórnmálaflokka, sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn, sem hafa varið fram í rauðan dauðann þetta kerfi sem í raun færir örfáum einstaklingum í þessu litla samfélagi okkar öll þessi verðmæti. Af hverju gera þeir það? Það eru gríðarlegir hagsmunir fyrir þjóðina að við náum að breyta þessu. En það eru líka gríðarlegir hagsmunir hjá þeim sem hagnast á þessu kerfi að verjast öllum breytingum.

Frú forseti. Hagkvæmni þarf að vera eitt af leiðarljósum kerfisins en kerfið þarf líka að vera réttlát. Ég vil að aukinn arður af auðlindinni renni til þjóðarinnar. Brauðmolakenning Sjálfstæðismanna um að þjóðin eigi bara að vera þakklát fyrir að það séu yfirleitt störf í sjávarútvegi er í rauninni kjánaleg. Mér finnst fáránlegt að laxveiðimenn muni greiða hærra verð fyrir sín veiðileyfi heldur en stórútgerðin en það mun gerast í ár vegna ákvarðana þessarar ríkisstjórnar. Mér finnst fáránlegt að veiðileyfagjöldin nái ekki einu sinni lengur að dekka þann kostnað sem almenningur verður fyrir vegna þjónustu við greinina og mér finnst fáránlegt að veiðileyfagjöldin hafi lækkað um meira en helming síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum.

Frú forseti. Það er augljóst hvaða hagsmunir verða ætíð ofan á hjá þessari ríkisstjórn og það eru ekki hagsmunir almennings heldur hagsmunir stórútgerðarinnar.