150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

fiskveiðistjórnarkerfið.

[11:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í þessari umræðu og í umræðum undanfarna daga hefur mér verið hugsað til vanda fyrri ríkisstjórna og þá sérstaklega alvarlegs vanda núverandi ríkisstjórnar. Þetta vandamál er fáfræðisvandi. Fáfræðisvandinn er þannig að ríkisstjórnin sannfærir sjálfa sig, eins og félags- og barnamálaráðherra sagði í dag, að það að borga ríkustu lífeyrisþegunum 1 milljarð af 5, láta 4 fara til þeirra sem þurfa á því að halda, sé alveg hryllilegt. Ef við snúum dæminu við er staðan akkúrat núna að við erum að láta þá sem eru ríkastir og vaða í milljörðum alltaf fá meira og meira. Við erum að reyna að verja það að þeir geti mútað, geti borgað margfalt meira fyrir aflann erlendis heldur en hér. Við eigum líka að spyrja okkur að því: Hvernig stendur á því að fiskur fer ekki allur á markað? Væri það ekki sanngjarnt? Það hefur enginn bent á það.

Það sem mér finnst líka mjög alvarlegt og hefur aldrei verið rætt í sambandi við Namibíu og það sem mér fannst stórfurðulegt þegar ég horfði á þáttinn á sínum tíma var þetta risa ryksuguskip sem mokaði upp þúsundum tonna. Það virtist ekkert eftirlit vera með því hvað þeir voru að gera. Eru þeir að eyða fisknum þarna? Hefur enginn áhyggjur af því hvað er verið að gera við fiskstofnana á þessu svæði? Er verið að arðræna þjóðina, er verið að eyðileggja stofninn? Það virðist enginn pæla í því hvað við erum að gera þarna. Sama og við gerum hérna heima, það er enginn að pæla í brottkasti, hvernig litlu útgerðirnar standa eða almenningur í byggðum úti á landi sem eru að grotna vegna þess að það er búið að taka allan kvóta frá þeim.