150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

fiskveiðistjórnarkerfið.

[11:56]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka prýðilega góða umræðu og hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir þátttöku í henni. Þetta er á endanum svo einfalt mál. Það er alltaf reynt að snúa þessari umræðu á haus þegar hún er tekin og að hér sé verið að kollvarpa fiskveiðistjórnarkerfinu. Nei, það er ekki verið að því. Fiskveiðistjórnarkerfið er fyrst og fremst kerfi til að stýra sjálfbærum veiðum og hvernig við háttum þeim. Það er ekkert verið að tala um að breyta því. Hér er einfaldlega verið að tala um það að við breytum því hvernig við verðleggjum aðganginn að þessum takmörkuðu gæðum sem veiðiréttindin fela í sér. Við getum haldið áfram hér í þingsal að karpa um það endalaust. Við erum búin að breyta því þó nokkrum sinnum á undanförnum sex, sjö árum hvernig þetta veiðigjald skuli reiknað — það er allur fyrirsjáanleikinn sem er í núverandi kerfi — eða við getum treyst markaðsleiðinni, að útgerðin sjálf verðleggi í gegnum uppboð. Þar er ekki heldur verið að tala um neina breytingu eins og hæstv. ráðherra kom inn á varðandi fyrirkomulag á því að tryggja t.d. hæfilega dreifingu. Það er nú þegar í lögum og við erum að taka þá umræðu hvernig við tryggjum að það sé hæfileg dreifing á veiðiheimildunum, að við séum með skýrar reglur um það hvernig við skilgreinum tengda aðila og svo mætti áfram telja.

Á endanum er breytingin sem kallað er eftir ein einföld breyting; að veiðiheimildir séu til skilgreinds tíma en ekki ótakmarkaðs eins og nú er og að þeim sé úthlutað gegn uppboði, með núgildandi reglum um t.d. hámarksaflahlutdeild og hvernig skilgreina skuli tengda aðila þó að vissulega þurfi að gera lagfæringar á því. Það er öll byltingin sem Viðreisn og fleiri flokkar hafa verið að boða í þessu kerfi. Við hættum að rífast um það í þessum sal hvort útgerðin sé að borga (Forseti hringir.) sanngjarnt afgjald fyrir auðlindina eða ekki og felum einfaldlega markaðsleiðinni (Forseti hringir.) að ákvarða það og tryggjum þannig að þjóðin fái sanngjarna og eðlilega hlutdeild í þeim miklu verðmætum sem hér er um að ræða.