150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

stefna stjórnvalda í matvælaframleiðslu.

[12:12]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Í þessari fyrri ræðu minni mun ég fara nokkrum orðum um þær hefðbundnu greinar sem við höfum rekið í matvælaframleiðslu árum og öldum saman, þ.e. landbúnað og sjávarútveg. Okkur hefur sárlega skort í þessum greinum, sérstaklega landbúnaði, metnað. Þá er ég ekki að tala um frumframleiðendurna, það vantar ekkert upp á metnað bænda, það vantar upp á metnað þeirra sem sinna úrvinnslu, dreifingu og markaðssókn. Það er mál sem þarf að taka markvisst á. Við höfum gert margar andvana tilraunir til að flytja t.d. lambakjöt til Ameríku sem hefur verið gert af vanþekkingu að mínu mati, að reyna að troða þar inn í verslanakeðjur kjöti sem er í samkeppni við níðódýra framleiðslu Nýsjálendinga. Auðvitað eigum við að senda okkar kjöt á veitingastaði þar sem margfalt hærra verð fæst. Við erum líka bundin af því í sauðfjárrækt að samvinna sláturleyfishafa hefur verið bönnuð. Það er ekki sama ástand þar uppi eins og í mjólkinni sem hefur reynst þokkalega vel. Þar þurfum við að taka á. Við þurfum að leggja áherslu á það hversu lítil lyfjanotkun hér er, líka í landbúnaði.

Hvað varðar sjávarútveg þá höfum við náttúrlega lyft grettistaki, sérstaklega í markaðssókn. Það eru hins vegar blikur á lofti núna vegna þess að úrvinnsla afurðanna virðist hafa flust að miklu leyti til útlanda og það er þróun sem ég hefði haldið að við hefðum þurft að sporna við og halda uppi atvinnustigi á Íslandi. Við erum náttúrlega að keppa þar við tvífrysta vöru sem er níðódýr og veidd kannski við Rússlandsstrendur, framleidd í Kína eða unnin í Kína og seld á Evrópumarkaði. Við þurfum að leggja áherslu á það að kolefnisjöfnun okkar og kolefnisspor okkar í sjávarútvegi er miklu minna en sem þessu nemur.