150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

stefna stjórnvalda í matvælaframleiðslu.

[12:19]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Mig langar að byrja á að benda ráðherra á málþing í kvöld sem ber yfirskriftina „Grænmetisrækt, sjálfbærni og nýsköpun“ þar sem er leitast við að svara spurningunum: Hver er staða grænmetisbænda á Íslandi í dag? Hver er staða nýsköpunar í grænmetisfæði á Íslandi í dag? Mér er sagt að hæstv. umhverfisráðherra muni mæta og gott ef hæstv. landbúnaðarráðherra gæti mætt og farið yfir þessa hluti sem hann nefndi í svari við einni af síðustu spurningum fyrirspyrjanda varðandi ylrækt og lífræna ræktun á Íslandi. Ráðherra bendir á þá vinnu sem er í gangi og þær upplýsingar gætu skilað sér þangað, kannski getur einhver frá ráðuneytinu komið því það væri mjög áhugavert að fá þetta inn í þá umræðu. Málþingið fer fram kl. 20–22 í sal Kvennaheimilisins á Hallveigarstöðum, Túngötu 14, í kvöld.

Varðandi landbúnaðarstefnu Pírata þegar kemur að spurningum fyrirspyrjenda þá viljum við grunnstuðning þannig að virkir bændur sem viðhafa viðurkenndar starfsaðferðir eigi rétt á grunnstuðningi. Dýravelferð, sjálfbærni, lífrænt o.fl., góður og sjálfbær landbúnaður, eru forsendur fyrir meiri styrk en grunnstuðningur skal þó alltaf tryggja afkomuöryggi til bænda. Svo eru viðurkenndar starfsaðferðir sem fá þá meiri stuðning, t.d. er varða fæðuöryggi og velferð plantna, sjálfbæra nýtingu o.s.frv. Í ofanálag eru síðan grænar greiðslur og miðað við þær spurningar sem lagðar voru fram af frummælanda um matvælaöryggi, loftslagsmál og svoleiðis, ef það er stefna Vinstri grænna, sem mig grunar, heyrist mér hún ríma vel við stefnu Pírata í þessum málum.

Ef ráðherra gæti komið örlítið betur komið inn á það að fókusinn í dag er svolítið á veganisma eða grænkerisma. Í The Economist var talað um árið 2018 að 2019 myndi verða ár þeirrar stefnu. (Forseti hringir.) Við sjáum að sú framleiðsla sem við erum með hérna, grænmetisframleiðsla á Íslandi, m.a. gulrætur, (Forseti hringir.) fer á 300% hærra verði í Danmörku. Það er gríðarleg framtíð og tækifæri í þessu. Ef ráðherra gæti komið inn á þetta.