150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

stefna stjórnvalda í matvælaframleiðslu.

[12:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Um leið og ég fagna þessari umræðu þá vil ég líka vekja athygli á því að það er ekki langt síðan málinu um sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS-sjóðsins var frestað. Því var frestað að stofna og setja á laggirnar Matvælasjóð sem ég tel að hefði verið gríðarlega mikilvægt skref til þess að ýta undir það sem við viljum öll sjá, öfluga íslenska matvælaframleiðslu. Og hvernig gerum við það best? Ekki bara með sjóðnum. Mín skoðun og okkar í Viðreisn er sú að við eigum að aflétta lénsherrafyrirkomulaginu sem er bæði í íslenskum landbúnaði og íslenskum sjávarútvegi. Við þurfum að auka frelsi á öllum sviðum, færa frelsi til bændanna, auka svigrúmið þannig að þeir séu ekki fastir á klafa þess kerfis sem við höfum byggt upp í áraraðir og áratugaraðir, ekki síst með stuðningi þeirra stjórnarflokka sem núna eru.

Hvað er það besta sem við myndum gera — og hvernig getum við séð það? Það getum við m.a. séð í aukinni nýsköpun á einu tilteknu sviði innan landbúnaðarins. Það eru grænmetisbændur. Þar er ein mesta nýsköpunin, mestu sprotarnir eru þar. Það gerðum við með því að opna landamæri, opna og hætta ákveðinni tollvernd og fyrir vikið sæjum við meiri nýsköpun og fleiri sprotafyrirtæki á því sviði en nokkurs staðar annars staðar. Það sama gildir að sjálfsögðu um sjávarútveg. Við eigum að reyna að færa eins mikið af því og við getum heim í hérað. Það gerum við með því m.a. að bjóða upp aflaheimildir og láta Innviðasjóð byggja upp svæðin á landsbyggðinni og færa fjármagnið, færa svigrúmið til sveitarfélaganna, til bændanna á viðkomandi svæðum. Þannig aukum við og ýtum undir nýsköpun sem víðast. Helsi og höft, sem m.a. formaður atvinnuveganefndar hefur verið boðberi fyrir, eru ekki hjálpleg til að byggja upp öfluga og sterka matvælastefnu. Við þurfum að auka frelsi á öllum sviðum til að ýta undir nýsköpun, ýta undir sprota. Það er leiðin sem er skynsamlegust og best.