150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

stefna stjórnvalda í matvælaframleiðslu.

[12:24]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu og ráðherra. Þetta er þörf umræða. Það sem við þurfum að átta okkur á með íslensk matvæli er að allir þurfa að hafa efni á þeim. Það er stór hópur fólks hér á Íslandi sem getur ekki leyft sér að kaupa íslensk matvæli vegna þess að þau eru svo dýr. Þessir einstaklingar mega þakka fyrir að geta keypt erlend hrísgrjón eða pasta, ef þeir hafa efni á því yfir höfuð. Á sama tíma og við erum að greiða fyrir stórmengandi álver, kísilver sem brenna þúsundum tonna af kolum og menga ótrúlega, sjáum við ekki til þess að auðvelda stórframleiðendum í grænmetisframleiðslu og öðrum framleiðendum að búa til stór gróðurhús. Ég myndi vilja á augabragði breyta öllum álverum og kísilverum í gróðurhús ef það væri hægt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það væri snilld. Hugsið ykkur hvað það væri fallegt í Straumsvík ef álverið væri gróðurhús á mörgum hæðum. Og ég spyr: Ef Hollendingar geta gert þetta og flutt til okkar matvæli sem eru margfalt ódýrari, af hverju í ósköpunum getum við, með allt okkar rafmagn og allt okkar vatn, ekki gert það? Af hverju erum við ekki að framleiða matvæli, þúsundir tonna, og flytja út? Við vitum þegar við borðum erlent grænmeti og íslenskt grænmeti að íslenskt grænmeti er miklu betra. Við vitum þetta.

Síðan verðum við líka að taka á þessu ótrúlega verði. Er það eðlilegt að við förum út í búð eða út að borða og fáum okkur eina pitsu að við séum að borga andvirði tveggja, jafnvel þriggja fyrir þessa einu hérna á Íslandi miðað við erlendis? Afsökunin er alltaf að við erum eyja og það er svo dýrt en á öðrum eyjum í Evrópu er það jafn ódýrt og á meginlandinu, það er alltaf dýrast hér.