150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

stefna stjórnvalda í matvælaframleiðslu.

[12:31]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. málshefjanda fyrir hennar frumkvæði og hæstv. ráðherra fyrir hans svör. Matvælaiðnaður og -framleiðsla er ein stærsta iðngrein á Íslandi, hvort sem það er til sjávar eða sveita, og ég held að við þurfum líka að nálgast umræðu um stefnu í matvælamálum ekki síður út frá stefnunni um það hvernig starfsskilyrði við sköpum þessum fyrirtækjum, hvernig við byggjum undir þann iðnað og hvernig við höldum utan um hann.

Ég hef ásamt hv. fyrrverandi þingmanni, Brynhildi Pétursdóttur, stýrt samráðshópi um endurskoðun búvörusamninga núna í eitt og hálft ár og sá hópur mun skila hæstv. landbúnaðarráðherra niðurstöðu sinni í byrjun febrúar sem byggir á ítarlegri sviðsmyndavinnu um framtíð íslensks landbúnaðar með aðkomu yfir 400 einstaklinga, fyrirtækja og stofnana sem grundvallar þá greiningu og það rit. Ofan á þessar sviðsmyndir leggur samráðshópurinn í heild sinni til mótun landbúnaðarstefnu til lengri tíma sem styður við matvælastefnu, styður almennt við atvinnustefnu Íslands, orkustefnu og fleiri þætti.

Kjarninn í áherslum samráðshópsins og greiningar sviðsmyndanna er einfaldlega þessi: Það þarf að styðja miklu frekar við þekkingaröflun, nýsköpun, rannsóknir á sviði matvæla, á sviði landbúnaðar og matvælaframleiðslu, og í raun og veru menntunar á því sviði líka. Það er kannski kjarninn í því sem við þurfum að taka betur utan um, hvort sem við horfum til matvælaframleiðslu til sjávar eða sveita, nákvæmlega þessi þáttur, nýsköpun og framsókn á því sviði. Í skilabréfi samráðshópsins, vegna samninga um garðyrkju, hefur verið áherslan verið, eins hefur verið í þessari umræðu, sérstaklega til landbúnaðarráðherra, að beita sér fyrir öflugri sókn í garðyrkjunni og grænmetisframleiðslu. En þá komum við kannski að kjarna þessa máls: Hvaða starfsskilyrði munum við búa iðnfyrirtækjum á þessu sviði til framtíðar á Íslandi?