150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

stefna stjórnvalda í matvælaframleiðslu.

[12:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Þegar ég var beðinn um að mæta á umrætt málþing um grænmetisrækt kl. 20 í kvöld, Túngötu 14, hafði ég samband við varaformann Samtaka grænkera sem standa að þinginu, Valgerði Árnadóttur, til að skilja betur veganisma og þau tækifæri sem ör vöxtur veganisma í hinum vestræna heimi veitir Íslandi, ylræktinni hér og lífrænni ræktun. Það var mjög áhugavert samtal, að kafa ofan í það hverjar eru forsendur hugmyndafræðinnar, hver vöxturinn er og hvaða tækifæri eru í boði. Það er hún sem nefndi það við mig að íslenskar gúrkur í Danmörku væru að seljast á 300% hærra verði þannig að tækifærin eru til staðar. Við erum með heita vatnið og gott aðgengi að köldu vatni. Við erum með rafmagnið. Það eina í rauninni sem ég fann — ráðherra getur kannski komið inn á það — varðandi umsagnir Sambands garðyrkjubænda, sérstaklega varðandi stuðning við þá í einhverjum þingmálum, það kemur kannski meira inn í fjárlög, er rafmagnskostnaður. Það er búið að skilgreina þéttbýli — á þeim tíma, þetta þingmál er svolítið gamalt — sem 200 einstaklinga. Þeir nota meira rafmagn en þéttbýlið og kostnaðurinn við uppbyggingu á raforkutengingu hjá þeim er miklu minni en í þéttbýli en samt eiga þeir að borga 25% álag. Þá var sagt: Já, en þið fáið styrk, en styrkurinn er minni en kostnaðurinn. (Gripið fram í.) Nei, þetta er gamalt, það var Sigurður Ingi Jóhannsson sem lagði fram þessa þingsályktunartillögu og þetta kom fram þar. Það væri gott að fá að vita hjá ráðherra hver staðan er og ég býð honum aftur að mæta til að útskýra hver staðan er í samningum við garðyrkjubændur í kvöld á Túngötu 14, kl. 20.