150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

stefna stjórnvalda í matvælaframleiðslu.

[12:42]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Segjum að við séum með grænmeti, tvær paprikur sem líta eins út, en eru þær eins? Við erum kannski með tvær appelsínur, þær líta líka eins út, eru mjög svipaðar, en eru þær eins? Þetta getur líka gilt um banana. Ég er búinn að uppgötva það með banana að tveir bananar, annar er borðaður á Íslandi — hann er gjörólíkur banana sem er borðaður t.d. á Kanaríeyjum og ræktaður þar. Það er himinn og haf þar á milli. Hvernig stendur á því? Jú, það er lífræn ræktun. Ég hitti ferðalang sem kom alla leið frá hinum megin á hnettinum, frá Filippseyjum. Hún sagði við okkur: Bananar sem þið eruð að borða á Íslandi eru skepnufóður hjá okkur. Hvað segir þetta okkur? Við erum að flytja inn matvæli með rosalegu kolefnisspori og unga fólkið krefst þess að við förum að hugsa hlutina upp á nýtt. Við eigum að passa upp á það núna að fara að rækta lífrænt. Þetta er bara krafan, þetta er framtíðin. Við eigum líka að sjá til þess að lífræn ræktun fái styrki, aðstöðu og allt til þess að geta blómstrað. Við eigum að horfa á framtíðina vegna þess að heimurinn er að breytast. Við þurfum ekki annað en að horfa núna til Ástralíu til að sjá hvaða gjörbreyting er að verða. Ef við verðum ekki tilbúin, þá getum við sjálfum okkur um kennt vegna þess að við eigum stuðla að því nr. eitt, tvö og þrjú að vera sjálfbær með matvæli. En við verðum líka að passa upp á það að allir hafi efni á því að kaupa þetta, þetta sé ekki bara gæðavara fyrir þá ríku. Við verðum að sjá til þess að þeir sem hafa það verst hér á landi geti líka notið þess að kaupa góðan, ferskan og lífrænt ræktaðan mat.