150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

stefna stjórnvalda í matvælaframleiðslu.

[12:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur átt sér stað og mér heyrast áherslur þingmanna sem tekið hafa þátt í umræðunni heilt yfir vera ósköp svipaðar. Menn horfa til þess að við styrkjum okkur á flesta lund í þessum efnum. Mér fannst hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir draga vel saman í sínum lokaorðum innihald þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað og ég hef engu við þau að bæta í sjálfu sér. Merkilegt samt sem áður, þegar maður fer að velta þessu fyrir sér, að í umræðunni ber til muna minna á því að sjávarútvegur og framleiðsla þar sé hluti af matvælaframleiðslu landsins. Kallast á við það að við erum að flytja 99% af því sem við öflum á erlenda markaði. Í landbúnaðinum erum við að stærstum hluta, sennilega 98–99%, að neyta á innlendum markaði. Af þessu leiðir að við verðum að ræða samkeppnisstöðu þessara tveggja greina og framtíð þeirra með þetta í huga. Við erum með útflutning í sjávarútvegi á erlendan markað þar sem við erum að keppa við erlend fyrirtæki en hér heima erum við að fá erlenda samkeppni á innlendan markað. Ég er þeirrar skoðunar að m.a. það sem hefur verið rætt um stofnun matvælasjóðs sem gerir fært að breyta og taka upp nýjungar sé hið besta mál en það tekur tíma að koma honum á.

Það hefur verið töluvert rætt um ylræktina og ég vísa í því sambandi á afar góða grein eftir Ara Trausta Guðmundsson í Bændablaðinu í dag varðandi þau mál og ég deili flestum þeim sjónarmiðum sem þar koma fram.

Mest auglýsta málþing hér í sölum Alþingis? Því miður hef ég ekki tök á að sækja það (Gripið fram í.)en fæ örugglega fréttir af því. Ég vil bara segja sem mín lokaorð: Tækifæri til lengri tíma fyrir Ísland liggja á þessu sviði, þ.e. í framleiðslu matvæla, í fiski, landbúnaðarafurðum og ekki síst grænmeti.