150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

utanvegaakstur og verndun lands á hálendi Íslands.

59. mál
[13:47]
Horfa

Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegur forseti. Ég flyt þingsályktunartillögu um utanvegaakstur og verndun lands á hálendi Íslands. Ásamt þeim sem hér stendur eru flutningsmenn hv. þingmenn Njáll Trausti Friðbertsson, Ólafur Ísleifsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Guðjón S. Brjánsson og Karl Gauti Hjaltason. Í þessari þingsályktunartillögu sem vísað er til umhverfis- og auðlindaráðherra stendur:

„Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að skipa starfshóp í samráði við ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til að gera tillögu um hvernig koma megi í veg fyrir utanvegaakstur á hálendi Íslands.

Starfshópurinn verði skipaður einstaklingum með þekkingu á hálendinu og reynslu af fararstjórn á viðkvæmustu náttúruperlum Íslands. Starfshópurinn skili tillögum til ráðherra eigi síðar en 15. mars 2020 svo að bregðast megi við og gera viðeigandi ráðstafanir fyrir opnun hálendisvega sumarið 2020. Umhverfis- og auðlindaráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.“

Hér fylgir eftirfarandi greinargerð: Þessi tillaga var áður lögð fram á 149. löggjafarþingi en var ekki afgreidd.

Árlega berast fréttir af óafturkræfum náttúruspjöllum vegna utanvegaaksturs á hálendi Íslands en með aukinni umferð um hálendið verða fleiri alvarleg spjöll á náttúru landsins. Utanvegaakstur skilur eftir sig sár í jarðvegi, t.d. í möl og mosa, og eru slík náttúruspjöll í allflestum tilfellum óafturkræf. Samkvæmt 31. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, er bannað að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Í 2. mgr. þeirrar greinar er kveðið á um tilteknar undanþágur, t.d. vegna starfa við landbúnað. Þrátt fyrir hina almennu reglu um bann við akstri utan vega er slíkur akstur viðvarandi með tilheyrandi náttúruspjöllum.

Í tugum frétta í fjölmiðlum á hverju ári segir frá ótrúlegum náttúruspjöllum sem orsakast af vanþekkingu en í sumum tilvikum af einbeittum brotavilja. Sú staðreynd hvernig Ísland er auglýst á erlendum vettvangi skiptir lykilmáli. Í mörgum tilfellum er gefið til kynna í greinum um hálendisferðir og auglýsingum um landið í erlendum blöðum að á hálendi Íslands geti ferðamenn ekið um ósnert víðerni án nokkurra hindrana. Afleiðingar slíkrar umfjöllunar koma í ljós þegar bjarga þarf ferðamönnum og ökutækjum þeirra langt utan vega eða slóða á hálendinu en ferðamenn telja sig í góðri trú fara að reglum. Eftir slíkar björgunarferðir, þar sem miklar tilfæringar og atgang þarf til að björgunarsveitir nái upp bílum, trukkum og jafnvel hópferðabílum ferðamanna, eru óafturkræf spjöll orðin á viðkvæmri náttúru sem engar sektir bæta. Það er því mikilvægt að setja strangar reglur um ferðir einstaklinga og hópa á ökutækjum um hálendi Íslands. Auk þess þarf að efla upplýsingagjöf til ferðamanna þannig að þeir séu meðvitaðir um þær reglur sem gilda um akstur á hálendi.

Til að sporna við þessari þróun og tryggja vernd hálendisins þarf víðtækt samráð hagsmunaaðila og skýrar reglur. Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofa, leiðsögumenn, lögregla og björgunarsveitir, bílaleigur og landeigendur eru lykilaðilar í verndun hálendisins ásamt bændum. Rétt er að fulltrúar þeirra sitji í starfshópi ráðherra sem fjallar um þetta mikilvæga mál og komi með tillögur sem byggjast á reynslu og þekkingu einstaklinganna sem vinna á vettvangi við leiðsögn og björgunarstörf. Þá er mikilvægt að líta til reynslu annarra þjóða sem sett hafa strangar reglur um ferðaáætlanir, tryggingar og innlenda fararstjórn, leyfi og umgengni og ferðir um víðerni og verndarsvæði. Þá þarf nefndin að skoða hvort rétt sé að taka upp sérstaka gjaldtöku og krefjast lágmarksþekkingar á náttúru og aðstæðum á því svæði sem ferð er áætluð á. Að mati flutningsmanna ætti leiðsögn þar til bærra manna að vera skilyrði til ferðalaga í atvinnuskyni. Gjaldtaka eða tryggingarfé fyrir ferðir í atvinnuskyni ætti að öllu leyti að standa undir kostnaði við eftirlit og björgun fólks sem oft tekur óþarfa áhættu á ferðum sínum og þarf að bjarga með ærnum kostnaði samfélagsins. Gjaldtakan myndi einnig eiga við um ferðamenn sem ganga um hálendið, fjöll og jökla í hópum eða einir síns liðs á öllum tímum ársins.

Hér er verið að vitna til hluta sem við erum að upplifa nánast daglega, sérstaklega yfir sumartímann. Það eru jafnvel þekktir einstaklingar erlendis frá sem hingað koma sem hafa verið staðnir að því að aka um afar viðkvæm svæði. Það er líka orðið mikið atvinnulíf á hálendinu, t.d. er á Hveravöllum og í Kerlingarfjöllum og upp á Langjökul mikið boðið upp á alls lags ferðir og afþreyingu sem tugþúsundir og hundruð þúsunda ferðamanna sækja á hverju ári. Ég hef heyrt töluna 300.0000–400.000 ferðamenn á hverju ári sem koma þangað, fara á jökulinn, fara um svæðið. Það er auðvitað mjög mikilvægt þar sem stór hluti þessara ferðamanna, eða u.þ.b. 60% ferðamanna á Íslandi, ferðast á eigin bílum eða bílaleigubílum, að þeim sé rækilega gerð grein fyrir því hvaða þýðingu það hefur ef þeir fara út fyrir vegi og slóða sem ætlaðir eru til ferðalaga á hálendinu. Þetta er mál sem stendur hjarta okkar mjög nærri, hér er greinargerð sem við leggjum fram og vonandi fær þetta mál afgreiðslu.

Ég legg að lokum til að málinu verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.