150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

innviðauppbygging og markaðssetning hafnarinnar í Þorlákshöfn.

61. mál
[14:15]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir framsöguna og þessa góðu tillögu. Ég er einn af meðflutningsmönnum hennar og fagna henni mjög. Hún er vel unnin og ég vona að hún fái skjóta afgreiðslu í þinginu og að sá starfshópur sem rætt er um verði skipaður og vinni hratt og vel þá vinnu sem lagt er upp með í tillögunni.

Sveitarfélagið Ölfus hefur á undanförnum árum orðið fyrir áföllum í atvinnumálum á svæðinu. Þau tengjast öll sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti. Umtalsverður fiskveiðikvóti hefur farið frá svæðinu og ekki er langt síðan fiskvinnslufyrirtækið Frostfiskur flutti starfsemi sína þaðan og með því fóru nærri 60 störf eins og við þekkjum. Þá kemur að því sem við höfum rætt hér um, afleiðingum þess að hægt sé að selja kvóta frá sjávarbyggðum. Afleiðingarnar eru sláandi og við horfum upp á atvinnumissi, fólksfækkun og verðfall á eignum fólks og þjónustuaðila svo eitthvað sé nefnt. Þarna eru augljósir gallar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem er nauðsynlegt að girða fyrir. Við í Miðflokknum höfum lagt áherslu á að settar verði ákveðnar girðingar í lögum, ef svo má að orði komast, til að koma í veg fyrir að kvóti verði seldur burt frá byggðarlögum sem byggja afkomu sína að stórum hluta á fiskveiðum og fiskvinnslu. Málefni Frostfisks á sínum tíma voru kannski aðeins öðruvísi að því leytinu til að þau voru meira viðskiptalegs eðlis og höfðu ekki beint með kvóta að gera en engu að síður hefur bæjarfélagið orðið fyrir áföllum. Það er hins vegar aðdáunarvert, herra forseti, að fylgjast með því hversu vel heimamönnum hefur tekist að endurreisa atvinnulífið.

Þar sjáum við sérstaklega hversu vel hefur til tekist með höfnina í Þorlákshöfn. Tiltrú heimamanna á rekstri hafnarinnar og sú ákvörðun á sínum tíma að ráðast í viðamiklar endurbætur á höfninni til að geta tekið við nýjum og auknum verkefnum hefur skilað þeim gríðarlega árangri sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson rakti í framsögu sinni. Það hefur komið því til leiðar að nú eru hafnar reglubundnar millilandasiglingar til og frá Þorlákshöfn. Umsvifin hafa stóraukist og Þorlákshöfn er nú komin á kortið sem inn- og útflutningshöfn með stysta flutningstímann í sjóflutningum til og frá landinu. Það er ástæða til að hrósa bæjarfélaginu fyrir þetta verkefni og þá miklu framsýni sem það hefur sýnt.

Það er afar brýnt að tryggja fjármagn úr ríkissjóði til að ljúka hafnarframkvæmdunum, ekki síst af öryggisástæðunum sem hv. þingmaður rakti. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi í vikunni að taka á móti hinu nýja skipi, Akranesi, sem er farið að sigla á vegum Smyril Line til Þorlákshafnar þannig að þá verður viðkoma tvisvar í viku. Umsvifin aukast jafnt og þétt. Það var alveg greinilega áskorun fyrir skipstjórann að sigla inn í höfnina, það var ansi hvasst þennan dag sem við fengum að skoða skipið, og verður að segjast eins og er að það er mjög brýnt að bregðast við því og lengja kantinn eins og hv. þingmaður rakti til að fyllsta öryggis verði gætt í öllum veðrum.

Það er líka mjög ánægjulegt að hinum auknu umsvifum hafnarinnar hafi fylgt lækkun á fargjöldum sem hafa vonandi skilað sér til neytenda sem er mjög brýnt. Nú er Þorlákshöfn orðin ein af lykilhöfnum landsins sem er ákaflega ánægjulegt. Tækifærin eru fjölmörg eins og hv. þingmaður rakti. Ég verð að segja, herra forseti, að þetta er gott dæmi um hversu vel framsýni heimamanna, dugnaður og kraftur til að bregðast við áföllum hefur skilað sér og ég óska heimamönnum og okkur öllum til hamingju með það að þessi höfn fari vaxandi og að núna sé komið þangað nýtt skip og viðkoman orðin tvisvar í viku, eins og ég nefndi. Þetta telur allt saman og hefur veruleg áhrif inn á svæðið sem er mikið fagnaðarefni.

Eins og ég nefndi í upphafi vona ég að þessi tillaga fái skjóta og góða afgreiðslu og að hægt verði að fara í nauðsynlegar endurbætur til að tryggja öryggi og að höfnin megi halda áfram að vaxa og dafna.