150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

lýðskólinn á Flateyri.

[13:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í fyrsta sinn er búið að setja lög um lýðskóla á Íslandi og það var gert af þessari ríkisstjórn vegna þess að hún hefur trú á þeirri hugmyndafræði sem lýðskólar standa fyrir. Áhugi á lýðskólum hefur verið talsverður á Íslandi síðustu 100 árin en það er fyrst núna sem búið er að gera sérstök lög um lýðskóla. Í þeirri ríkisfjármálaáætlun sem við erum að undirbúa núna er gert ráð fyrir talsverðum fjármunum í lýðskólana.

Það er ánægjulegt að upplýsa hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um að ég hef átt samtal við skólastjórann í lýðskólanum á Flateyri og sagt henni að framtíð skólans sé tryggð. Meðan þar eru nemendur sem hafa áhuga á að læra og skólinn er vel starfræktur munum við að sjálfsögðu styðja við bakið á lýðskólanum á Flateyri. Eins og ég segi er í fyrsta sinn búið að setja góðan lagagrunn fyrir lýðskóla þannig að okkur er ekkert að vanbúnaði að styðja við skólann, enda er þar starfræktur mjög góður skóli. Okkur er ekkert að vanbúnaði og skólastjórnendur eru að fullu upplýstir um þetta þannig að ég verð að segja að þau skilaboð sem hv. þingmaður færir Alþingi koma mér nokkuð á óvart.