Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

vextir á endurgreiðslur frá Tryggingastofnun.

[13:43]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég veit ekki annað en að þarna sé unnið eftir þeim lögum sem um þetta gilda. Mér er ekki kunnugt um nákvæmlega það atriði sem hv. þingmaður spyr um nema hvað ég veit að það á að vera búið að greiða út til allra þeirra sem áttu að fá greiðslur samkvæmt þessum dómi og var gert ráð fyrir því í afgreiðslu fjáraukalaga þannig að hægt væri að klára það. Ég veit ekki annað en að Tryggingastofnun sé búin að greiða það út.

Varðandi dráttarvextina hvað þetta snertir er mér ekki kunnugt um það nákvæmlega. Hins vegar vil ég segja að gagnvart þessu ákveðna atriði hefur afstaða mín ekki breyst. Þeir fjármunir sem fara til efstu tekjutíundanna eftir þennan dóm eru fjármunir sem ég sé eftir. Ég sé ekki eftir þeim fjármunum sem fara til þeirra í lægri tekjutíundunum, m.a. til móður hv. þm. Ingu Sæland sem er auðsjáanlega ekki í efstu tekjutíundunum. Ég sé ekki eftir þeim fjármunum en ég sé eftir þeim fjármunum sem fara til efstu tekjutíundanna. Sumir þessara einstaklinga fá upp undir 700.000 kr. í eingreiðslu. Þar eru m.a. fyrrverandi þingmenn og fyrrverandi forstjórar. Ég sé eftir þeim fjármunum og ég myndi líka sjá eftir dráttarvöxtum til þeirra í efstu tekjutíundunum vegna þess að þeim fjármunum væri að mínu viti betur varið til lægstu tekjutíundanna.

Hvað varðar fyrirspurn hv. þingmanns er mér ekki kunnugt um hana nákvæmlega. Ég mun skoða það en ég veit ekki annað en að þarna hafi verið farið eftir lögum, að allir fjármunir hafi verið tryggðir og að Tryggingastofnun hafi getað greitt út.