150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

vextir á endurgreiðslur frá Tryggingastofnun.

[13:47]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði í svari mínu áðan höfum við tryggt fjármuni til að greiða þetta út. Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns um dráttarvexti mun ég skoða það en hins vegar breytir það ekki afstöðu minni til málsins og þeirra fjármuna sem fara á grunni þessa dóms til efstu tekjutíundanna. 2–3 milljarðar af þessum 6 milljörðum fara til efstu tekjutíundanna og ég sé eftir þeim fjármunum (Gripið fram í.) vegna þess að þarna var um að ræða mistök við lagasetningu. Þessum fjármunum hefði ég gjarnan viljað verja til tekjulægstu hópa samfélagsins.

Við erum núna með á þingmálaskrá frumvarp sem ætlað er að koma sérstaklega til móts við tekjulægstu hópana innan hóps aldraðra. Það frumvarp kostar 400–500 millj. kr. á ári. Það hefði verið hægt fyrir bara efstu tekjutíundirnar að tryggja það í fjögur til fimm ár. (Gripið fram í.) Ég mun skoða það sem hv. þingmaður spyr um en það breytir ekki afstöðu minni til þessa, ég sé eftir þeim fjármunum sem fara til fyrrverandi alþingismanna, fyrrverandi forstjóra (IngS: Ég sé …) og fyrrverandi toppa í þessu samfélagi. (Forseti hringir.) Ég sé ekki eftir fjármununum til tekjulægstu hópanna.