150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

hlutdeild landsbyggðar í auðlindatekjum.

[13:49]
Horfa

Elvar Eyvindsson (M):

Herra forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra um byggðastefnu og framkvæmd hennar með tilliti til uppruna skatttekna og nýtingar þeirra. Það er orðin kunnugleg mynd vítt og breitt um landið að þegar komið er í þorpin blasa við þjónustufyrirtæki á báðar hendur og eru þau flest hluti af stærri keðjum með starfsemi um allt land og nær undantekningalaust með yfirstjórn á höfuðborgarsvæðinu. Þannig er aðeins hluti starfseminnar á hverjum stað og mikilvæg stjórnunarstörf eru víðs fjarri. Tekjur heimamanna af þessari starfsemi felast í fasteignagjöldum og útsvari þeirra starfsmanna sem eiga heima á staðnum. Mestur hluti af hálaunastörfunum er þó talinn fram í öðrum sveitarfélögum og kemur ekki til tekna í hlutfalli við starfsemina á hverjum stað. Það sama gerist t.d. í ferðaþjónustunni þar sem mikill hluti af því aðdráttarafli sem fær fólk til að ferðast til landsins er á landsbyggðinni en mörgum sem þar búa finnst lítið koma í staðinn. Aðgengi að heilsugæslu eða bætt vegakerfi batnar ekki í réttu hlutfalli við fjölgun notenda. Þá er ótalin uppspretta auðlinda eins og landgæða, sjávarútvegs- og orkuauðlinda.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort einhver vinna hafi farið fram í ráðuneytinu þar sem rannsakað er hvar fjármunirnir eiga upptök sín og hvort og hvernig það megi með einhverjum hætti veita landsvæðunum aukna hlutdeild í þeirri verðmætaaukningu á landsvísu sem hvert svæði á þátt í.