150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

hlutdeild landsbyggðar í auðlindatekjum.

[13:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að í þessu samhengi sé nauðsynlegt að benda á að kviknað hefur líf víða um landið vegna tækifæra sem eru að raungerast í ferðaþjónustu. Við sjáum nýjar hótelbyggingar rísa víða, bæði á Suðurlandinu og fyrir austan og norðan, ýmiss konar tækifæri sem tengjast heimagistingu og í raun og veru er allt annað að fara um landið borið saman við það sem áður var. Það er ekki hægt að nálgast þessa umræðu þannig að landsbyggðin hafi algjörlega orðið út undan. Hins vegar eru áskoranir eins og hérna er nefnt.

Varðandi þjóðgarða erum við með dæmi um þjóðgarða á Íslandi sem sveitarfélögin sem eru næst eru gríðarlega stolt af og njóta góðs af. Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir varðandi hugmyndina um miðhálendisþjóðgarð er að ná að útfæra hana með þeim hætti að sá samtakamáttur sem hv. þingmaður vísar til glutrist ekki niður í leiðinni.