150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

útgreiðsla persónuafsláttar.

[14:31]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Halldóru Mogensen kærlega fyrir þessa umræðu og hennar seiglu í þessum hugmyndum og þeirri umræðu sem lýtur að einhverju leyti að borgaralaunum, ef ég skil þessa umræðu rétt. Að þessu sinni er verið að ræða hvort það megi kalla borgaralaun eitthvað annað, eins og t.d. að greiða ónýttan persónuafslátt út. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni að við eigum að fjárfesta í fólki en ég velti því fyrir mér hvort þessi hugmynd sé góð lausn á því. Persónuafsláttur á mánuði er 54.624 kr. á árinu 2020 og á ári 655.000 kr. og þetta er jafn há tala fyrir alla. Ég velti fyrir mér hvort við eigum að færa t.d. manneskju sem hefur allar sínar tekjur í fjármagnstekjum, hefur milljónatugi eða milljarða í fjármagnstekjur eingöngu, slíkan stuðning, persónuafslátt sem er 655.000 kr. á ári, hvort það sé nauðsynlegt eða hvort við gætum nýtt 11,2 milljarða frekar til stuðnings við þá sem virkilega þurfa á því að halda.

Hv. þingmanni varð tíðrætt um námsmenn og stöðu námsmanna og það er mjög oft þannig að námsmenn reyna að nýta allar mögulegar stundir sem ekki fara í skólann til að vinna, á sumrin og í hléum, og geta þá nýtt uppsafnaðan persónuafslátt sinn. Ég held að þetta myndi bitna á námsmönnum á öðrum tímum og gera mögulega að verkum að sá uppgripstími sem oft er á sumrin myndi ekki nýtast eins og verið hefur. Þannig að um leið og ég fagna þessari umræðu sé ég í fljótu bragði ýmsa vankanta á þessari hugmynd.