150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

útgreiðsla persónuafsláttar.

[14:34]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir þessa sérstöku umræðu um útgreiðslu á ónýttum persónuafslætti. Þá vil ég þakka innlegg hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í þessa umræðu. Mér finnst umræðan góðra gjalda verð sem og hugmyndafræðin sem liggur að baki. Mér finnst hún hafa dregið fram einkum tvennt, í fyrsta lagi að þetta sé augljóslega rætt í samhengi við tekjuskattskerfið og hlutverk persónuafsláttar í því kerfi og í öðru lagi aukinn stuðning við þá sem hafa lægri tekjur. Hv. framsögumaður og hæstv. ráðherra fóru yfir þessa 10 milljarða tölu. Ef ég fer í svar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni sýnast mér tölurnar lítið hafa breyst. Þetta eru 10 milljarðar og tveir þriðju af þessum hópi eru augljóslega námsmenn á aldursbilinu 16–25 ára. Þá velti ég fyrir mér hvernig við styðjum þetta fólk best. Ég held að flestir séu sammála því að fjárfesting í ungu fólki og fólki almennt sé lykillinn að framtíð og nýsköpun. Það er oft sagt forsenda framtíðarhagvaxtar. Þess vegna er öflugt menntakerfi og forsendur þess í raun og veru að við tryggjum að allir geti aflað sér menntunar. Fyrir þinginu liggur frumvarp sem felur í sér þá helstu nýbreytni að auka og jafna stuðning í formi styrkja.