150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

útgreiðsla persónuafsláttar.

[14:36]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég tek undir með öðrum hér og fagna þessari umræðu. Það er mjög gagnlegt að fara í gegnum umræður um útgreiðanlegan persónuafslátt. Þessi hugmynd er mjög í takt við þær skattatillögur sem unnar voru á vegum samráðsvettvangs á sínum tíma þar sem gerð var tillaga um að stokka tekjuskattskerfið upp, hækka persónuafslátt umtalsvert en láta hann hins vegar fjara út með hækkandi tekjum á móti. Viðreisn studdist við þær tillögur í sínum skattatillögum einfaldlega vegna þess að þetta einfaldar mjög margt í tekjuskattskerfinu. Það hefur verið eilíft þrætuepli varðandi tekjuskattskerfið okkar hvernig við eigum að nota persónuafsláttinn, hvernig hann eigi að fylgja verðlagi eða launaþróun o.s.frv. Staðreyndin hefur verið sú að fyrir ríkissjóð hefur það alltaf verið mjög kostnaðarsamt að hækka persónuafsláttinn vegna þess að hann gagnast öllum. Það að láta hann falla niður með hækkandi tekjum, eins og tillögur hafa verið um, myndu gera okkur mun auðveldara að stýra tekjuskattskerfinu og ekki síður mikilvægur þáttur af þeim tillögum er að hann sé þá einmitt útgreiðanlegur til þeirra sem ekki ná að nýta hann til fulls. Mér finnast það mjög áhugaverðar tillögur því að slíkt myndi nýtast tekjulægsta endanum langbest. Það yrði í raun nokkurs konar stuðningur við námsmenn. Og margítrekað hefur verið bent á að það sé löstur á okkar stuðningsfyrirkomulagi við námsmenn hversu mikið námsmenn telja sig yfir höfuð þurfa að vinna til að framfleyta sér og ná þar af leiðandi síður að einbeita sér að námi.

Ég fagna þessari umræðu. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi valið aðra leið í tekjuskattsbreytingum tel ég að það sé fullkomlega eðlilegt að halda þessari umræðu áfram og skoða betur hvort hægt sé að breyta tekjuskattskerfinu í þessa veru.