150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

útgreiðsla persónuafsláttar.

[14:38]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir þessa góðu umræðu um persónuafslátt sem sannarlega er þörf á að ræða hér. Við höfum í gegnum tíðina horft á hvernig breytingar hafa verið gerðar á persónuafslætti. Við höfum séð að hjón geta nýtt persónuafslátt sem er ónýttur. Það hefur nú komið eitthvað fram um að það eigi ekki að vera lengur mögulegt. Þó að það sé ekki alveg búið að taka gildi enn þá hefur það verið í farvatninu. Við höfum mælt sérstaklega fyrir því í Flokki fólksins að við vildum taka upp svokallaðan fallandi persónuafslátt og við höfum gjarnan sagt hér og ég í þessum ræðustóli að mér finnst alveg með ólíkindum að þeir sem eru milljónamenn og -konur fái persónuafslátt. Ég get ekki alveg skilið hvernig stendur á því að við færum ekki persónuafsláttinn frá þeim sem hafa akkúrat ekkert með hann að gera yfir til þeirra sem virkilega þurfa á honum að halda.

Það kom fram í ræðu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að sennilega upp undir fjórðungur þeirra sem týna sínum persónuafslætti um hver áramót séu börn undir lögaldri eða 16 og 17 ára unglingar, það eru ríflega 3 milljarðar af þeim 11,2 sem féllu niður ónýttir til um síðustu áramót. Spurningin er einfaldlega þessi þegar við erum að hugsa um nákvæmlega þetta: Hvernig getum við tekið þessa 11,2 milljarða og virkilega fært þá þangað sem þörf er fyrir þá? Það er það sem mér finnst nauðsynlegt að umræðan snúist um. Hvernig getum við forgangsraðað fjármunum þangað sem þeirra mest er þörf?

Þessi umræða er mjög góð. Ég vildi ekkert frekar en að allir fengju borgaðan út sinn ónýtta persónuafslátt. En mér finnst að við verðum að útfæra það svolítið betur og við gætum gert það þannig að hann nýttist best þeim sem mest þurfa á að halda.