150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

útgreiðsla persónuafsláttar.

[14:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með framsögumanni um mikilvægi þess að styðja við ungt fólk og sérstaklega námsfólk. En grundvallarspurningin í dag er hvort útgreiðsla persónuafsláttar myndi gagnast þessum hópi best og væri í raun gagnleg til að draga úr fátækt, þ.e. hvort hún nái til þeirra hópa sem helst þurfa. Það þyrfti að skoða þetta í kjölinn og gott betur. Jafnréttismat gæti t.d. leitt í ljós að það myndi draga úr hvata fyrir því að hækka grunnlaun láglaunafólks, hóps sem er mjög oft að meiri hluta konur. Lægri grunnlaun þýða minni ávinnsla réttinda þegar kemur að töku eftirlauna og þar með myndum við ýkja enn kynbundinn mun á lífeyrisaldri sem er enn meiri en kynbundinn launamunur á vinnumarkaði eins og við þekkjum vel.

Hvað varðar námsmenn þá hallast ég að því að lausnin þar sé einfaldari en einhver breyting á tekjuskattskerfinu. Þar þarf einfaldlega að styrkja námslánakerfið og hækka grunnframfærsluna sem ekki er til umræðu í þeim breytingum sem liggja fyrir þinginu í dag. En fyrir ungt fólk almennt, og þá sérstaklega ungar barnafjölskyldur sem eru að koma undir sig fótunum, er rétt að minna á skýrsluna Barnabætur á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin sem unnin var fyrir BSRB á síðasta ári og sýndi svo skýrt fram á nauðsyn þess að endurskoða það mikilvæga stoðkerfi algerlega frá grunni. Ég held að það væri jafnvel meira aðkallandi að fara í slíka endurskoðun en að hræra eitthvað í tekjuskattskerfinu, að skoða bara í víðu samhengi hvernig hægt er að endurskoða stuðningskerfi við ungar fjölskyldur þar sem skilgreint er með skýrum hætti hvert markmið kerfisins eigi að vera og sníða síðan kerfi sem nær þeim markmiðum fram.