150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

útgreiðsla persónuafsláttar.

[14:42]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þessi hugmynd um persónuarð er auðvitað ekkert annað en hlutdeild í arðsemi samfélagsins. Sá árangur sem hefur leitt til þess að við höfum öfluga innviði og gott menntakerfi og verðmæta atvinnuvegi hefur aukið velsæld Íslendinga á marga vegu. Sparnaður samfélagsins af því að vatn berist um vatnspípur í stað þess að það þurfi að sækja það úr brunni er einhvers virði á hverjum degi. Sparnaðurinn af því að geta keyrt milli bæjarfélaga í stað þess að vera á hestbaki er einhvers virði á hverjum degi. Öll tækniþróun eykur arðsemi samfélagsins. Persónuafsláttur er auðvitað ekkert ódýrt fyrirbæri ef hugsað er um skatta sem fjármögnunarleið ríkisins, að persónuafsláttur valdi því að ríkið verði af einhverjum tekjum sem það eigi einhvern veginn rétt á. En hugsi maður persónuafslátt sem arð af því að samfélagið sem heild gekk upp í einn mánuð í viðbót og skattana sjálfa sem leið til að tempra hagkerfið þá birtist okkur önnur mynd.

Hæstv. fjármálaráðherra segist hafa áhyggjur af hærri jaðarsköttum sé þetta gert en það er auðvitað þannig að þótt jaðarskatturinn kunni að vera örlítið hærri, sem hann yrði reyndar ekki, þá breytir það samt engu um það að þetta hefði eingöngu áhrif, jákvæð áhrif, á fólk sem hefur litlar sem engar tekjur. Þetta er ekki fullkomin tillaga enn sem komið er en auðvitað má útfæra hana, auðvitað má hugsa hana. Það er enginn að fara að hætta við að fara á vinnumarkað vegna örfárra þúsundkalla á mánuði, þótt þeir vissulega hjálpi. Enn fremur er fráleitt að líta á skattalækkun sem gagnlegri aðferð en hækkun persónuafsláttar, enda kemur hún aðallega þeim ríku til góða.

Það er líka forvitnilegt að heyra fólk sem talar gjarnan um einföldun kerfisins tala nú gegn einföldun kerfisins. Það er eðlilegt að við ræðum um þessa hugmynd og það er eðlilegt að við reynum að skoða hvaða áhrif þetta hefði á verðbólgu og kaupmátt og velsæld. Það er eðlilegt að við áttum okkur á því að í ríkum samfélögum eiga allir að njóta góðs af. Það er mjög líklegt að alla vega 2,5 milljarðar af þessu myndu koma til baka í formi virðisaukaskatts og aukin efnahagsumsvif sem myndu fylgja þessu myndu leiða af sér stækkun hagkerfisins og ábata þar. (Forseti hringir.) Við getum alla vega skoðað hvernig reikningsdæmið kemur út vegna þess að þetta er forvitnileg hugmynd.