150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

útgreiðsla persónuafsláttar.

[14:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Ég vil líkt og aðrir þakka fyrir þessa umræðu sem er fyrir margra hluta sakir áhugaverð. Ég verð að segja að sú hugmynd sem frummælandi þessa máls talar fyrir er áhugaverð. Ég tek hins vegar undir með þeim sem hafa lýst efasemdum, sagt að það þurfi í það minnsta að útfæra þetta þannig að þetta skili sér á þann stað sem það á að skila sér. Ég er sammála þeim sem hafa sagt að svona aðferð megi vitanlega ekki verða til þess að mismuna fólki með neinum hætti. Ég tel ekki ástæðu til þess. Við höfum talað fyrir því í Miðflokknum að það eigi frekar að nota fjármuni sem eru til reiðu til að lækka skatta almennt. Að lækka lægsta skattþrepið er ein leið til þess. Við höfum líka talað fyrir því að með því að lækka t.d. skatta á fyrirtæki verði til svigrúm til að fara í nýsköpun og ráða til sín fólk, ekki síst ungt fólk. Það má líka hugsa sér að breyta reglum okkar og lögum þannig að tekjur námsmanna sem hafa tækifæri til þess að vinna sér inn saltið í grautinn yfir sumarmánuðina geti verið hærri en þær eru í dag þannig að skerðingar og annað dragi ekki úr þeim. Ég held að það sé mjög mikilvægt að allar hugmyndir fái umfjöllun og til þess m.a., held ég, er hv. þingmaður að taka þessa umræðu hér, að varpa fram einhverri pælingu, hugmynd, hvað sem svo verður um hana. Ég held að það sé mjög mikilvægt að reikna dæmið til enda. Hv. þingmaður nefndi hér rannsóknir sem hefðu sýnt að það væri sniðugt og snjallt að gera þetta. Það er mikilvægt að slíkt sé dregið fram þannig að hægt sé að grandskoða við hvað er átt með því, hvort það séu ábyggilegar rannsóknir og það allt saman. En ég held að það sé ágætt í raun að við förum héðan með þetta í veganesti, að hugsa þetta mál til hlítar. Vonandi verður önnur umræða síðar þegar við höfum náð að pæla betur í þessu.