150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

útgreiðsla persónuafsláttar.

[14:49]
Horfa

Una Hildardóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Ég tel þó að breytingar af þessu tagi muni ekki skila sér til þeirra sem raunverulega þurfa á stuðningi að halda. Ónýttur persónuafsláttur er mestur hjá aldurshópnum 15–20 ára og ef við horfum til núverandi uppsveiflu í hagkerfinu frá árinu 2010 hefur kaupmáttaraukning verið mest hjá aldurshópnum 65 ára og eldri annars vegar og 16–24 ára hins vegar. Þar er um að ræða í kringum 40% kaupmáttaraukningu en á meðan er aukningin minnst í aldurshópnum 24–44 en þar er hún í kringum 20%. Það má því segja að um sé að ræða tekjujöfnunaraðgerð fyrir rangan aldurshóp ungs fólks. Aðgerð sem þessi tekur ekki á þeim ójöfnuði á milli kynslóða sem myndast hefur frá hruni en ungt fólk, sem hefur vissulega setið eftir í þessari kaupmáttaraukningu, þarf á einhverjum aðgerðum að halda. Samkvæmt Tekjusögunni hefur félagslegur hreyfanleiki ungs fólks minnkað síðastliðna áratugi sem er töluvert áhyggjuefni. Það mætti rekja það beint til sífellt verri fjárhagsstöðu ungs fólks.

Ég vil impra á því að það er mikilvægt að stjórnvöld vinni að því að bæta hag ungs fólks og komi til móts við þann aldurshóp sem setið hefur eftir. Ég tel þó tillögu hv. þingmanns ekki vera rétta nálgun. Frekar ættum við að horfa á námslánakerfið, húsnæðisstuðningskerfið, uppbyggingu almennra íbúða, stúdentaíbúðir, barnabótakerfið og styrki til nýsköpunar. Ef við ætlum að ráðast í breytingar á persónuafsláttarkerfinu ættum við kannski frekar að leggja áherslu á að nýta það sem tekjujöfnunartæki og beina stuðningnum til þeirra sem raunverulega þurfa á honum að halda.