150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

útgreiðsla persónuafsláttar.

[14:51]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég, rétt eins og aðrir þingmenn, þakka þessa umræðu. Það er gott að ræða grundvallaratriði og til þess, m.a. og ekki síst, erum við hér, til að ræða þau grundvallaratriði sem hafa þarf að leiðarljósi þegar við setjum þessu samfélagi ramma. Þetta er, eins og sumir hafa sagt hér á undan mér, áhugaverð hugmynd — og þegar ég segi áhugaverð þá meina ég áhugaverð, ekki slæm eins og fólk á gjarnan við þegar það segir að því finnist eitthvað áhugavert. Þetta er mjög áhugaverð hugmynd, þetta eru áhugaverð viðbrögð við því sem er við sjóndeildarhringinn og við erum þegar farin að verða vör við sem er sjálfvirknivæðing með þeim afleiðingum að alls konar störf hverfa og svo þetta hark-hagkerfi svokallaða sem snýst um tímabundin störf sem réttindi fylgja ekki með. En ég myndi samt telja að hér sé verið að bregðast við ástandi sem ekki er alveg komið, þ.e. ástandið þar sem tækifærin eru af mjög skornum skammti til að fá vinnu og til að framfleyta sér. Það er enn ekki svo komið. Og ég er nú enn svo gamaldags, kannski, má segja, að ég aðhyllist úrræði hefðbundinnar jafnaðarstefnu sem er að jafna kjörin í gegnum tekjuskattskerfið, námslánakerfið, húsnæðiskerfið, gegnum barnabætur, ekki síst, og almannatryggingar. Brýnast er núna að bæta aðbúnað og kjör ungs barnafólks sem (Forseti hringir.) þarf að leggja í allt of mikinn kostnað og allt of fjárfrekar aðgerðir við að sinna lágmarksþörfum fjölskyldunnar.