150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

útgreiðsla persónuafsláttar.

[14:54]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa góðu umræðu og ráðherra fyrir hans svör og í raun öllum þeim sem tekið hafa þátt í umræðunni. Það er ótrúlega margt sem hefur komið fram sem veldur því að hugurinn fer á flakk. Ég verð að segja að ég kaupi ekki alveg hugmyndina eins og hún er lögð fram en það má vinna með hana og gera ýmislegt úr henni. Það var sérstaklega talað um að þetta gæti haft í för með sér neikvæða hvata á vilja fólks til vinnu og þá ungs fólks og námsmanna. Að minni reynslu sem stjórnanda með ungt fólk í sumarvinnu er ekkert skemmtilegra en vorin þegar krakkarnir koma í vinnu og eru að kynnast nýjum störfum. Mörg hver velja sér ævistarf út frá því sem verið er að gera á sumrin. Þarna er ég helst að horfa á menntaskólaaldurinn en svo fær fólk þjálfun í því sem það velur sér til að hafa lífsviðurværi af seinna þegar það vinnur með háskólanámi eða verknámi og öðru slíku. Þannig að ég myndi segja að ég hræðist svolítið að þetta dragi úr því að krakkar komi og vinni á sumrin og kynnist þá einhverju sem þeim hafði alls ekki komið til hugar að vinna við áður og gefur þeim aukin tækifæri. Krakkar á suðvesturhorninu hafa oft ekki úr miklu að moða þannig að svæðin okkur úti á landi fyllast lífi þegar krakkarnir koma og kynnast líka bara landinu sínu. Margir fara svo jafnvel í sjálfstæðan atvinnurekstur eftir að hafa verið úti á landi. Þar gætum við t.d. nýtt þessa peninga í nýsköpun, í verkefni og annað fyrir nýútskrifaða listamenn eða fjallaleiðsögumenn eða annað slíkt, til að koma undir sig fótunum seinna í lífinu.