150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

útgreiðsla persónuafsláttar.

[14:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er stór umræða sem krefst þess að maður taki með í reikninginn öll önnur stuðningskerfi sem við erum með í tekjuskattskerfinu og bótakerfunum. Staðreyndin er sú að tilfærslur, útgreiddar bætur af ýmsum toga, hafa verið að vaxa mjög verulega á undanförnum árum. Það er í raun og veru ekki mögulegt að taka einangraðan þátt eins og persónuafsláttinn og segja: Það eru til talsmenn þess að greiða út persónuafsláttinn ónýttan, og láta sem svo að þeir séu með slíka hugmyndafræði alveg óháð öllu öðru sem við erum að gera. Það er auðvitað ekki þannig. Við erum með fjölmörg önnur stuðningskerfi til að styðja við atvinnulausa og tekjulága. Ef við spyrjum okkur bara þessara grundvallarspurninga: Hvaða vanda er verið að reyna að leysa með þessari hugmynd? Við hverju er verið að bregðast og til hvaða hóps værum við sérstaklega að ná? finnst mér í raun og veru koma mörg svör. Eins og ég rakti hér áðan færi tæplega helmingur af heildarstuðningnum til fólks sem er undir tvítugu sem þó býr við þær aðstæður að séu menn tilbúnir til að leggja eitthvað á sig, t.d. að sumri til í vinnu, þá eru fyrstu krónurnar skattfrjálsar, skattbyrðin í algeru lágmarki. Þannig er skattkerfið okkar hvetjandi til þess að leggja eitthvað á sig.

Ég veit það ekki. Ég horfi bara þannig á þetta mál að það væri eitthvað óeðlilegt við það að sumir myndu ákveða að sitja heima með hendur í vösum og þiggja 60.000 kr. meðan aðrir væru að spyrja sig: Bíddu, til hvers er ég að þessu? Mér verður hugsað til samtals sem ég átti við 15–16 ára stelpur um daginn sem hafa verið að leggja það á sig að vinna í ísbúðinni með námi til að eiga einhvern vasapening. Ég held að þær væru fljótar að sjá það í hendi sér að það hreinlega borgar sig ekki þegar sá sem er á næsta stól í bekknum fær sendan tékkann án þess að leggja neitt á sig. (Forseti hringir.) Ég held bara að almennt eigi ekki að vera að senda þau skilaboð út í samfélagið að það sé hægt að fá eitthvað mikið fyrir ekki neitt.