150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[15:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var ekkert að spyrja þingmanninn hvað einhverjir fræðimenn telja. Ég spurði þingmanninn út í það hvað henni finnist, hvort hún telji að ekki sé gengið á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga með þessu máli. Ég spurði líka hvort þetta þýddi ekki að hv. þingmaður og þeir sem vilja styðja málið treysti ekki íbúum minni sveitarfélaga til að taka ákvarðanir. Er það ekki það sem segir í þessu máli, að Alþingi og stóru sveitarfélögin, af því að hv. þingmaður og þeir sem vilja styðja þetta mál ganga erinda stóru sveitarfélaganna, eru að taka ákvarðanir fyrir íbúana af því að þeim sé ekki treystandi til að gera það? Þó hafa á löngum tíma mörg sveitarfélög sameinast einmitt vegna þess að íbúarnir höfðu frumkvæði að því og íbúarnir vildu sameinast.

Nú ætlar hv. þingmaður og væntanlega fleiri þingmenn í þessum sal að taka ákvörðunarréttinn af þessu fólki, af fólkinu sem býr í sveitarfélögunum. Mig langar að heyra þingmanninn útskýra það fyrir mér.

Og kannski ekki síst: Hvers vegna 250 og 1.000? Af hverju ekki 300 eða 1.500?