150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[15:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga sem hér er til umræðu felur það í sér að ákvarða að sveitarfélög skuli stækka fyrir tiltekið tímamark. Til þess fái íbúarnir svigrúm til að fara í viðræður til að ákveða hvaða sveitarfélög vilji sameinast. Það er rakið m.a. í nefndaráliti með tillögunni að það skipti miklu máli að íbúar hvers sveitarfélags fari í þessa vinnu, að það sé þeirra vinna að finna út úr því hvað sé skynsamlegast. Það getur verið að það sé skynsamlegt á einum stað að sameinast í tveimur umferðum, fara í gegnum tvær sameiningar, en á öðrum stað gæti ákvörðunin verið að gera þetta í einu lagi. Það er verið að taka stefnu og fela íbúum að vinna úr verkefninu.