150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[15:36]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna þar sem hún kynnti þessa tillögu til þingsályktunar og nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Við erum sammála í langflestum atriðum hvað þetta varðar enda viðamikið mál. Við erum sammála um að flytja störf út á land í meira mæli og efla sveitarfélögin, stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi um allt land o.s.frv. Hv. þingmaður sagðist hafa haft blendnar tilfinningar til málsins þegar það kom, sérstaklega varðandi lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga, en síðan hafi þetta orðið niðurstaðan. Niðurstaðan var ekki svona fyrir hana eina heldur gjörvalla nefndina fyrir utan minni hlutann sem telur tvo þingmenn Miðflokksins.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann um (Forseti hringir.) fjármagn til jöfnunarsjóðs sem á að fylgja þessum sameiningum. Talað hefur verið um 19 milljarða eða 15 milljarða. Sér þess einhvers staðar stað að þetta fjármagn sé að koma?