150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[15:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að einhvers staðar hafi komið til tals, og hef oft heyrt umræðu um það, að sameina stærri sveitarfélög á suðvesturhorninu. Í ljósi markmiða þeirrar tillögu sem við ræðum hér álít ég það ekki skynsamlegt. Hér er verið að reyna að skapa ákveðið jafnræði á milli sveitarfélaga og þá væri kannski ekki heppilegast að eitt sveitarfélag yrði hlutfallslega enn stærra en nú er.

Varðandi stjórnarskrárákvæðið sem hv. þingmaður vitnar til er það vel rakið í þriggja blaðsíðna minnisblaði sem fylgdi frumvarpinu, bæði í samráðsgáttinni og til þingsins, hvað stjórnarskrárákvæðið merkir. Þar er skýrt kveðið á um að sveitarfélög skuli sjálf (Forseti hringir.) ráða málefnum sem lög ákveða að þeim séu falin.