150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[15:46]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég tala fyrir nefndaráliti minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar með breytingartillögu við stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023. Undir þetta minnihlutaálit skrifa tveir þingmenn Miðflokksins, sá sem hér talar og Bergþór Ólason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar.

Minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar tekur undir og fagnar því að tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga til næstu 15 ára ásamt aðgerðaáætlun til fimm ára sé nú lögð fram í fyrsta skipti og telur hana innihalda þá meginþætti sem snúa að verkefnum sveitarfélaga til lengri tíma. Minni hlutinn er í flestum atriðum sammála þeirri tillögu til þingsályktunar sem hér er lögð fram. Minni hlutinn telur að ríkisvaldið eigi almennt að hvetja til sameiningar sveitarfélaga svo fremi sem það er skynsamlegt út frá landfræðilegum aðstæðum og sé hagfellt út frá almennum sjónarmiðum.

Það er margt gott í þessari tillögu og ég ætla örlítið að fletta henni hér. Hver er ekki sammála því sem stendur í upphafi I. kafla, um framtíðarsýn og meginmarkmið fyrir næstu 14 ár, að Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu? Hver er ekki sammála þessu? Síðan kemur að markmiðum og áherslum, þar stendur í lið 1.2: „Sjálfstjórn og ábyrgð sveitarfélaga virt“— það er nefnilega það — „og tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu.“ Auðvitað erum við sammála því að virða sjálfstjórn sveitarfélaga og jafna réttindi og aðgengi íbúa í landinu að margháttaðri þjónustu ríkis og einnig þeirri þjónustu sem er á hendi sveitarfélaga.

Svo kemur að aðgerðaáætluninni í II. kafla. Ég ætla að sleppa 1. lið núna, um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga, og koma að honum síðar. Ég tek það sem ég er virkilega sammála, 3. lið, um tekjustofna sveitarfélaga, að styrkja tekjustofna sveitarfélaga og auka fjárhagslega sjálfbærni þeirra. Það er löngu tímabært að styrkja tekjustofna sveitarfélaga. Það hefur verið margrætt í þinginu og víða annars staðar í samfélaginu að styrkja þá tekjustofna sem sveitarfélögin hafa. Þau hafa útsvar og fasteignagjöld en þurfa þó að bera þjónustu varðandi t.d. ferðamenn og þar er margháttuð önnur starfsemi eins og sjávarútvegur. Menn hafa rætt það t.d. að viðkomandi sveitarfélögum bæri kannski hlutdeild í veiðigjöldum, það hefur verið rætt, og hlutdeild í gistináttagjaldi, eins og reyndar er tekið fram í þessari tillögu að eigi að færa á kjörtímabilinu til sveitarfélaga. Það er löngu tímabært og ég get að sjálfsögðu skrifað undir það.

Annað er að tekjustofnar sveitarfélaga hafa verið mjög byggðir á fasteignagjöldum. Undanfarin ár, með tilkomu hækkandi fasteignaverðs, sérstaklega í þéttbýlinu á suðvesturhorninu og nágrannasveitarfélögum þar sem verðið hefur hækkað umtalsvert, hefur orðið gífurleg raunhækkun fasteignagjalda svo að margir gjaldendur eru að sligast undan því, fyrirtæki og einstaklingar eru að sligast undan þessum hækkunum sem hafa einungis orðið vegna lítils framboðs á íbúðarhúsnæði, fárra bygginga og samdráttar í því lengi vel þó að úr sé að rætast núna með tilheyrandi hækkun íbúðaverðs. Þetta hefur orðið til þess að útgjöld hins venjulega manns og hins venjulega fyrirtækis hafa stóraukist. Í þessu hefur ekkert verið gert. Það hefur ekkert verið brugðist við þessu af hálfu stjórnvalda. Einstaka sveitarfélög hafa lækkað álagningarprósentuna. Þar er einungis um smáræði að ræða. Við ættum að ræða auknar álögur frekar en lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga.

Mig langar að segja nokkur orð um 5. lið aðgerðaáætlunarinnar, um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég get auðvitað skrifað undir það að tekin sé afstaða til þess hvaða verkefni sé rétt að færa frá ríki til sveitarfélaga og öfugt. Auðvitað á að skoða það og þótt fyrr hefði verið. Þetta hefur reyndar verið á verkefnaskránni mjög lengi hjá stjórnvöldum. Menn hafa talað um það í áraraðir að þetta bæri að gera, það þyrfti að færa verkefni út á land til sveitarfélaga. Síðan þegar það hefur verið gert hefur fjármagn ekki fylgt. Sveitarfélögin hafa margkvartað yfir því varðandi margháttaða starfsemi þeirra sem öllum er kunnugt um. Þess vegna fór ég í andsvar við hv. þingmann og framsögumann meiri hluta um það fjármagn sem á að fylgja sameiningunum, hvort það sæist virkilega, hvort það væri í augsýn. Það er létt í vasa að lofa, en er það í augsýn? Megum við treysta því?

Í lið 7 í aðgerðaáætluninni, um samskipti ríkis og sveitarfélaga, standa þessi ágætu orð: „Að gæta að og virða sjálfstjórn sveitarfélaga …“ Ég kem betur að því á eftir hver virðingin er við sjálfstjórn sveitarfélaga.

11. liðurinn er mér mjög hugleikinn. Þar er verkefnismarkmiðið að auka fjölbreytni í atvinnulífi um allt land og bæta forsendur fyrir jöfn tækifæri sveitarfélaga óháð stærð og staðsetningu til sjálfbærs vaxtar. Það er löngu kominn tími til að verkefni og störf verði færð meira út á land en verið hefur. Við erum í öllum færum núna, sérstaklega varðandi tæknibyltinguna þar sem það skiptir jafnvel ekki máli hvar maður býr. Það er hægt að starfa við tölvuna, í gegnum netið, að ýmsum verkefnum og miklu fleiri verkefnum en bara fyrir örfáum árum. Það er kominn tími til að setja þessi störf meira út á land en verið hefur.

Ég held áfram með tillöguna í heild. Við í minni hlutanum leggjumst alfarið gegn því að ríkisvaldið gangi fram um að þvinga fram sameiningar sveitarfélaga með lögum líkt og lagt er til með tillögunni, án tillits til aðstæðna á hverju svæði eða vilja íbúa í viðkomandi sveitarfélögum. Nú á að þvinga stóran hluta af sveitarfélögum í landinu til nauðungarsameininga. Sveitarstjórnarmenn eiga sem sagt að líta í kringum sig og hafa með sér samlagningarvélina og kanna hvaða sveitarfélög í nágrenninu séu nægilega fjölmenn svo unnt sé að uppfylla lágmarksviðmið um íbúafjölda samkvæmt þessari tillögu og komandi lögum. Þeir eiga að horfa í kringum sig til að geta uppfyllt þá tölu sem þarna er sett á blað, 250 íbúar og síðan 1.000 íbúar. Þetta tekur til ansi margra sveitarfélaga þegar upp verður staðið eftir einungis sex ár. Þetta á að vera algjörlega án tillits til hagkvæmni landfræðilega eða til annarra þátta, svo sem samlegðaráhrifa sameininga eða vilja íbúanna sjálfra.

Þetta minnir óneitanlega á hugmyndir sem nú eru komnar fram um miðhálendisþjóðgarð. Svo verður þingmönnum tíðrætt um að virða vilja íbúanna. Virðum vilja íbúanna. Menn endurtaka þetta í sífelldu, bæði í rituðu máli og töluðu: Virðum vilja íbúanna. Hvernig er með vilja íbúanna í miðhálendisþjóðgarðsmálinu? Hver er vilji sveitarfélaganna og þeirra íbúa sem búa nálægt því svæði? Ég heyri ekki betur á viðbrögðum þessa fólks á fundum og í rituðu máli en að þetta sé í algjörri andstöðu við vilja sveitarfélaganna sem liggja að því svæði sem leggja á undir miðhálendisþjóðgarð. Það á að gera í beinni andstöðu við flestöll sveitarfélög sem land eiga að þessu svæði. Tölum meira um vilja íbúanna um landið.

Minni hlutinn hafnar því jafnframt alfarið að sameiningar sveitarfélaga séu þvingaðar fram með lögum án tillits til sjálfsákvörðunarréttar sveitarfélaga og án þess að íbúum þeirra sé veitt tækifæri til að hafa þar áhrif á niðurstöðuna — nema þá á síðari stigum til að ákveða hvaða sveitarfélagi þeirra sveitarfélag eigi að sameinast til að uppfylla lagaskilyrðin um lágmarksíbúafjölda.

Lítum á fjölda sveitarfélaga. Hv. framsögumaður meiri hluta hafði orð á því í sinni ræðu að sveitarfélögin hefðu verið upptekin síðustu áratugi við sameiningar. Hvernig hefur þetta gengið undanfarin ár? Það hefur bara gengið býsna vel, herra forseti. Sveitarfélögin voru 197 árið 1992. Síðan eru ekki liðin 30 ár. Í dag eru þau 72. Þeim hefur fækkað um 125. Það er töluvert meira en helmingur af því sem þau voru fyrir 28 árum. Ég tel þetta ansi góðan árangur. Hefur einhver lögþvingun verið í því? Ég minnist þess ekki. Það hafa verið hvatningar sem ég er fylgjandi. Þetta hefur gengið ágætlega. Og til hvaða sveitarfélaga tekur þessi tillaga? Eru þau mörg eða fá? Varðar þetta kannski bara fjögur, fimm sveitarfélög? Nei, heldur betur ekki. Það eru nefnilega 16 sveitarfélög sem eru með færri íbúa en 300. Þegar komið er upp í töluna 1.000 snertir þetta rúmlega 40 sveitarfélög, rúmlega helminginn af núverandi sveitarfélögum, þannig að þetta snertir æðimarga. Ég held að það sé best í þessum efnum að hvetja minni sveitarfélög til sameiningar, hagkvæmrar sameiningar, með fullum vilja íbúa í viðkomandi sveitarfélögum.

Herra forseti. Minni hluti bendir einnig á að fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að samráði við smærri sveitarfélög hefði verið ábótavant. Gagnrýndu fulltrúar smærri sveitarfélaga þar sérstaklega hvernig staðið var að því að mæla með samþykkt þingsályktunarinnar á XXXIV. landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Stærri sveitarfélögin hefðu því í raun samþykkt að hinum fámennari yrði gert að sameinast. Minni hlutinn telur það orka tvímælis, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að meiri hluti sveitarfélaga geti þannig með samþykktum sínum, á þeim vettvangi allra sveitarfélaga sem sambandið er, ákveðið að leggja niður önnur sveitarfélög, þ.e. minni hlutann á þinginu, í trássi við vilja þeirra. Það orkar mjög tvímælis, herra forseti.

Við bendum á að sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga er bundinn í 78. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að sveitarfélög skuli sjálf ráða málum sínum eftir því sem lög ákveða. Í 98. gr. sveitarstjórnarlaga segir að Samband íslenskra sveitarfélaga sé sameiginlegur málsvari sveitarfélaga í landinu og að öllum sveitarfélögum sé frjálst að ákveða hvort þau eigi aðild að sambandinu. Sveitarfélögunum er frjálst að ákveða hvort þau eigi aðild að þeim samtökum sem Samband íslenskra sveitarfélaga er. Það er líka athyglisvert sem kemur fram í samþykktum Sambands íslenskra sveitarfélaga, í 2. gr. um hlutverk sambandsins, með leyfi forseta:

„Að vera sameiginlegur málsvari sveitarfélaga og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum þeirra og samstarfi.“

Hvernig lítur það út, eftir að ég hef lesið þetta, þegar meiri hlutinn leggur fram tillögu um að leggja niður svo og svo mörg sveitarfélög, minni hlutann, örlítið minna en helminginn, og það er samþykkt á þingi sambandsins? Hvernig lítur það út eftir að ég hef lesið þessa grein um að sambandið eigi að vera sameiginlegur málsvari sveitarfélaganna? Það stendur einnig að sambandið eigi að vera fulltrúi sveitarfélaga gagnvart ríkisvaldinu og öðrum innlendum aðilum eftir því sem við á. Sambandið kemur fram sem fulltrúi sveitarfélaganna í heild sinni og leggur fram tillögu til ríkisvaldsins, gjörðu svo vel, leggðu nú niður þennan tæpa helming sem ekki vildi samþykkja tillögu um að leggja sig niður. Hvernig lítur þetta út með tilliti til sveitarstjórnarlaga, stjórnarskrárinnar og samþykkta sambandsins um að vera málsvari allra sveitarfélaga?

Það er ekki óeðlilegt að mörg sveitarfélög hafi velt fyrir sér stöðu sinni í slíkum aðstæðum með hliðsjón af því máli sem við fjöllum hér um, þ.e. samþykkt sambandsins síðan í september sl. um að leggja til við ríkisvaldið sem bregst svo við núna með því að leggja þessa tillögu fyrir þingið í því formi sem við ræðum hér. Margir hafa velt fyrir sér stöðu minni hluta sveitarfélaganna með tilliti til ákvæða stjórnarskrár um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og tilgang sambandsins sem á að vera málsvari allra sveitarfélaga, einnig með tilliti til þess að í landinu eru tvö stjórnsýslustig, þ.e. stjórnsýslustig framkvæmdarvaldsins, ríkisvaldið annars vegar, ráðuneytin, og hins vegar sveitarstjórnirnar sem eru svæðisbundin stjórnvöld. Hugum að því, herra forseti, hvernig þessi staða lítur út þegar við ræðum þetta mál á þinginu. Það er staðreynd að sambandið á að vinna að hagsmunum allra aðildarfélaga sinna og þá ekki síst gagnvart ríkisvaldinu. Það er frjáls aðild að sambandinu. Einhver sveitarfélög gætu kosið að eiga ekki aðild að því og eru þá ekki þátttakendur á fundum sambandsins eða samþykktum, kjósa að standa utan við sambandið. Hver er þá þeirra málsvari? Þau hafa sjálfsákvörðunarrétt og hafa svæðisbundið vald í héraði. Nokkur sveitarfélög hafa einmitt kosið að standa utan sambandsins sem á að fara með og vinna að hagsmunum allra sem í sambandinu eru. Hver er staða minni hluta sveitarfélaga á fundum sambandsins þegar slík tillaga er flutt? Getur meiri hlutinn, eins og þarna gerðist, borið minni hlutann í slíku félagi ofurliði í krafti atkvæða? Við vitum að stærri sveitarfélögin hafa auðvitað miklu fleiri fulltrúa á þingum í krafti fjöldans. Hvernig lítur það út?

Ég er mjög hugsi yfir því að þetta samband eins og það er gert og eins og lagaumgjörðin er gangi fram með þessa tillögu, knýi hana í gegn, fái til þess meirihlutastuðning og leggi hana svo í hendur ríkisvaldsins sem virðist — ekki er öll nótt úti enn — ætla að stökkva á þá hugmynd að þvinga sveitarfélögin með lagasetningarvaldi til að sameinast á þeim grunni að það eigi að telja íbúana. Það á að telja íbúana, ekki vegna þess að þarna sé fjall eða fjörður, eyja eða ófærð, vegir eða vegleysur, göng eða ekki — nei, ekki út af því, það á að telja íbúana. Ef sveitarfélagið nær ekki þessari tölu, 250 eða 1.000, skal það sameinast. Hagkvæmt eða ekki hagkvæmt, landfræðilega eða fjárhagslega skiptir engu máli. Það á bara að vera einhver tala, það er búið að finna hana og þá skulu þau sameinast. Þá skulu þau gjöra svo vel að stökkva yfir næsta fjall eða í gegnum næstu göng og finna sveitarfélag til að sameinast. Sjálfsákvörðunarrétturinn nær þangað. Sveitarfélögin geta litið í kringum sig og spurt: Hverju á ég að sameinast? Þeim er uppálagt það vald að finna æskilegan sameiningarkost en hvort hann sé hagkvæmur eða eðlilegur út frá landfræðilegum aðstæðum er annað mál. Þau eru kannski neydd í óhagstæða sameiningu eða þau passa alls ekki saman og sameiningin hefur enga hagræðingu í för með sér. Við höfum mörg dæmi um það. Ég gæti nefnt þau hér en ætla ekki að fara út í það í þessari ræðu. Ég get gert það síðar. Mér dettur bara í hug fámenn sveitarfélög víða um land þar sem eru mjög erfiðar samgöngur, eins og á Ströndum á Vestfjörðum, Austfjörðum og víða annars staðar þar sem langt er á milli staða og íbúar fáir. Hverjum eiga þau að sameinast? Næsta sveitarfélagi? Kannski er það bara mjög óeðlilegur kostur, alls ekki hentugur landfræðilega. Kannski er best að sveitarfélagið, þó að það séu bara 150 íbúar, sé sérstakt sveitarfélag áfram, ég tala nú ekki um ef það er vilji íbúanna.

Þingmönnum Miðflokksins hugnast ekki þessi aðferð. Við þingmenn Miðflokksins sem skipum minni hlutann í umhverfis- og samgöngunefnd, tveir í nefndinni, teljum að ríkið geti komið að sameiningu sveitarfélaga í samráði við þau með hvatningu, með því að setja fram hvata til að liðka fyrir sameiningum sem teljast hugsanlega hagkvæmar og eðlilegar og liðka fyrir þar án þess að þvinga það fram eins og gert er ráð fyrir í þessari tillögu.

Ég er líka hugsi yfir sameiningum almennt á þessu stigi. Hvað er svona mikilvægt að ríkið leggi stórkostlegt fjármagn í það og leggi fram tillögu í andstöðu við sveitarfélögin, setji í lög að þetta eigi að gera svona? Hver er æskileg stærð sveitarfélags? Hver er hagkvæmnin? Ég veit ekki betur, án þess að ég nefni einstök sveitarfélög, en að þau sveitarfélög sem hafa verið í mestum fjárhagslegum vandræðum síðustu árin séu meðal stærri sveitarfélaga en ekki þeirra minni. Vex fjárhagsleg ábyrgð með auknum íbúafjölda? Nei, þvert á móti, held ég, a.m.k. sýna dæmin það hér á landi.

Þegar sameiningarkostir eru metnir þarf að líta til landfræðilegra aðstæðna í hverju tilviki fyrir sig. Mikilvægt er að ganga ekki of hart að sveitarfélögunum og ýta á sameiningar enda kallar það á vandaðan undirbúning með aðkomu íbúa á lýðræðislegum vettvangi, auk þess sem tryggja þarf að gætt sé samhliða að til staðar sé fjármagn við bæði undirbúning og síðan uppbyggingu og viðhald innviða. Þetta er mikilvægt og ég fagna því að sjálfsögðu að þær sameiningar sem verða — vonandi þarf ekki að knýja það fram með lögþvingun eins og hér er lagt til — séu studdar og til þeirra hvatt með fjárframlögum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Ég styð það.

Minni hluti samgöngunefndar bendir einnig á að mörg minni sveitarfélög hafa lagst af miklum þunga gegn hugmyndum um lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga hér á landi eins og þær birtast í tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga og aðgerðaáætlun þar sem þær fari gegn þeim sterka þræði lýðræðis og sjálfsákvörðunarréttar sem í stjórnarskránni er hvað þetta varðar.

Fyrir nefndina kom fjöldi gesta eins og framsögumaður meiri hlutans kom að og eins og hún réttilega sagði komu fram ýmis sjónarmið varðandi þetta atriði. Menn voru heitir en ég verð einnig að benda á að ekki komu bara gestir frá minni sveitarfélögum heldur einnig frá sumum stærri sveitarfélaganna sem lögðust gegn þessari lögþvingun. Fulltrúar sumra stærri sveitarfélaganna mættu fyrir nefndina og lögðust einnig gegn þessu og vöruðu sterklega við því að þetta yrði þvingað fram með lögum. Á það var auðvitað ekkert hlustað, herra forseti, ekki frekar en endranær. Ég minnist þess sem ég talaði um áðan og nefni aftur miðhálendisþjóðgarð. Það er ekkert hlustað. Það er bara í tísku í dag að hlusta ekkert á fólkið í landinu. Meiri hlutinn er einbeittur — ég get ekki einu sinni talað um meiri hluta vegna þess að það er ekki bara meiri hluti stjórnar heldur líka meiri hluti í stjórnarandstöðunni vegna þess að allir fulltrúar annarra flokka sem sitja á þingi í stjórnarandstöðu skrifuðu einnig undir meirihlutaálitið. Það er ekkert hlustað á fólkið í landinu, herra forseti. — Ég verð líklega að fara í aðra ræðu til að klára þetta efni.