150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir yfirferð yfir álit minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Þar kom fram að við erum að mestu leyti sammála, að mér heyrist, um tíu liði í aðgerðaáætluninni og þá stefnumótun sem þar er lögð fram, en minni hlutinn er ósammála aðferðinni við að hvetja til sameininga og setja lágmarksíbúafjölda sem viðmið í þeim efnum.

Mig langar til að beina til þingmannsins þeirri spurningu hverjir séu fulltrúar fólksins í landinu. Honum varð tíðrætt um sjónarmið minni sveitarfélaganna og því vil ég spyrja hann sérstaklega hvort sjónarmið frá öllum minni sveitarfélögum landsins hafi komið fram fyrir nefndinni, annaðhvort jákvæð eða neikvæð, eða hve stór hluti minni sveitarfélaga hafi gagnrýnt tillöguna. Á sama hátt spyr ég hvort sjónarmið frá öllum stærri sveitarfélögum hafi verið samhljóða og hvort öll sveitarfélög hafi tjáð sig um málið við nefndina. Ég bjóst við áliti frá stærri hluta sveitarfélaga.

Mig langar síðan að snúa mér að sjálfsákvörðunarréttinum. Í greinargerð með tillögunni er fjallað um sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga og síðan fylgir, eins og fram hefur komið í umræðunni, ítarlegt minnisblað um hvað í honum felst. Er þingmaðurinn ósammála þeirri túlkun sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu (Forseti hringir.) um hvað felist í sjálfstjórnarréttinum?