150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:23]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er hlutverk sveitarfélaga skilgreint í lögum. Ég las upp úr 98. gr. sveitarstjórnarlaga áðan og úr stjórnarskrá. Við á Alþingi höfum lagasetningarvaldið, innan marka stjórnarskrárákvæða um sveitarfélögin, og þar með fulla heimild til að breyta umhverfi sveitarfélaga, verkefnum þeirra og hlutverki. Sveitarfélögin eru auðvitað bundin af því. Sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga er bundinn að lögum sem Alþingi setur. Við erum stödd hér á þinginu og sveitarfélögin verða að hlíta þeim lögum sem héðan koma.

Um málefni innan síns svæðis hafa þau ákveðin völd. Þau eru framkvæmdarvald á sveitarstjórnarstigi landfræðilega á sínu svæði og fara með málefni í umboði íbúanna og innan marka þeirra laga sem við setjum.