150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:30]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Það er fulltrúalýðræði sem ræðir málin í Sambandi íslenskra sveitarfélaga og þeim sem vilja kynna sér nánar þetta mál bendi ég á minnisblað frá sambandinu sem er undir gögnum málsins á vef þingsins. Það eru tvær spurningar sem þingmaðurinn svaraði ekki þannig að ég geri ráð fyrir að hann nýti næsta andsvar til að svara þeim.

Mig langar líka að vekja athygli á nefndaráliti meiri hlutans þar sem fjallað er um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga, að sveitarfélögunum sé veitt hæfilegt svigrúm til að uppfylla skilyrði um fækkun íbúa. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við mótun ákvæðisins um lágmarksíbúafjölda og eftirfylgni þess verði horft til landfræðilegra og félagslegra aðstæðna sveitarfélaga um hvort ástæða sé til að veita undanþágur frá meginreglum.“

Mig langar til að spyrja hvort þingmaðurinn telji ekki að þarna sé smuga. Ég held að mörgum finnist ekki kveðið nógu fast að orði, að það eigi að vera tiltekin íbúatala, heldur sé þarna veitt tækifæri til að gera undanþágur frá meginreglum. Finnst þingmanninum ekki vera komið þarna til móts við þau sveitarfélög sem jafnvel landfræðilega eiga ekki auðvelt með að sameinast eða af einhverjum öðrum félagslegum aðstæðum sveitarfélaga? Telur þingmaðurinn ekki komið til móts við þau sveitarfélög?