150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:35]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að taka fram að sú tillaga til þingsályktunar sem við ræðum hér, um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga, er í mörgu mjög góð. Í flestu er horft fram á veginn og ég gæti skrifað upp á flest sem þar stendur og flest þau markmið sem þar eru sett fram. Þó að ég hafi kannski aðrar hugmyndir um tekjustofna sveitarfélaga og hvernig samskiptum ríkis og sveitarfélaga eigi að vera háttað er það bitamunur en ekki fjár.

Líkt og kom fram í ræðu minni í fyrri umr. er fyrst og síðast eitt atriði sem stendur í þeim þingmanni sem hér stendur. Það gengur gegn öllum grunnhugmyndum mínum að þvinga fram með lögum ákveðin markmið og svipta íbúa í fámennum sem og fjölmennum sveitarfélögum þeim rétti að taka ákvörðun um sín eigin mál. Ég mun aldrei skrifa upp á slíka lögþvingun. Ég mun alltaf berjast gegn henni vegna þess að ég lít á það sem ofbeldi. Það er ofbeldi að fara fram með þeim hætti. Þegar menn fara síðan yfir helstu rök fyrir að beita þessum þvingunum er ég ekki viss um að þau rök haldi.

Herra forseti. Ég veit að þau halda ekki. Það er ekkert samhengi á milli fjárhagslegrar stöðu sveitarfélaga og stærðar eða fjölda íbúa. Við getum borið lítil sveitarfélög með 500–600 íbúum saman við Reykjavíkurborg. Það er ekkert samhengi á milli stærðar og fjárhagslegrar stöðu. Það er heldur ekkert samhengi á milli ánægju íbúanna með þjónustu sem þeir fá í sínu sveitarfélagi og fjöldans sem þar býr. Í raun er hægt að færa rök fyrir því að það sé neikvætt samband á milli stærðar sveitarfélags og ánægju íbúanna með þá þjónustu sem þeir fá í sínu sveitarfélagi. Rökin fyrir því að lögþvinga sveitarfélög til að sameinast eru því ekki til staðar.

Ég held að þetta snúist líka um almennt viðhorf löggjafans til íbúa hinna dreifðu byggða, um það hvaða augum við lítum það að íbúar í fámennum sveitarfélögum hafi burði, þekkingu og vit til að taka ákvörðun í eigin málum. Ég er þar. Ég mun standa vörð um rétt íbúa í fámennum sem og fjölmennum sveitarfélögum til að taka ákvarðanir í eigin málum. Ég mótmæli því að löggjafinn gangi fram eins og boðað er að gæti gerst í væntanlegri lagasetningu í framtíðinni. Sú lögþvingun nær ekki fram með samþykkt þessarar þingsályktunartillögu sem við ræðum, en hluti af þeirri stefnumótun sem verið er að tala um í málefnum sveitarfélaganna er að fækka sveitarfélögum og ná fækkuninni fram með þvingunaraðgerðum þannig að þar skuli eftir árið 2026 að lágmarki vera 1.000 íbúar.

Mér finnst dálítið hart að þingmenn skuli ekki leggja við hlustir þegar kemur að ákalli fámennra sveitarfélaga sem mörg hver standa bara ágætlega, þar sem íbúarnir eru ánægðir með sinn hag og vilja ekki miklu breyta. Það getur vel verið að sá tími komi í framtíðinni að íbúar viðkomandi sveitarfélags taki þá ákvörðun að hefja viðræður við annað sveitarfélag um sameiningu eða samvinnu en það verður gert á þeirra forsendum en ekki forsendum löggjafans, ekki á forsendum excel-manna sem vinna í ráðuneytunum og telja sig hafa komist að hinni endanlegu niðurstöðu um hagkvæmustu stærð eða fjölda í sveitarfélögum á Íslandi. Slíkt er ekki hægt. Enginn hefur burði eða þekkingu til að skera úr um það hvaða stærð og hvaða fjöldi er hagkvæmastur í sveitarfélögum á Íslandi. Það hefur enginn þá þekkingu enda er talan 1.000 bara falleg tala með þremur núllum.

Sveitarstjórn Hörgársveitar mótmælir hugmyndum um lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga. Hörgársveit stendur bara ágætlega, þakka ykkur fyrir, og hvetur ríkisstjórn og Alþingi til að virða lýðræðislegan rétt íbúa. Svo segir í umsögn um þá þingsályktunartillögu sem við erum að fjalla um. Skagabyggð sem er fámennt sveitarfélag mótmælir harðlega öllum hugmyndum um lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga á Íslandi. Ráðamenn eru hvattir til að virða hagsmuni íbúanna og sjálfsákvörðunarrétt í eigin málefnum. Sameining sveitarfélaga verður að gerast á forsendum þeirra sem um ræðir en ekki með valdboðum að ofan. Þetta eru skilaboðin frá Skagabyggð, skilaboð sem á að hlusta á og taka mark á.

Úr Skútustaðahreppi berast þessi skilaboð:

„Sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar lýsa sig mótfallnar lögþvinguðum sameiningum sveitarfélaga og benda á að þær samræmast ekki markmiðum þingsályktunartillögunnar um að bæta aðkomu almennings að ákvarðanatöku og stefnumótun á sveitarstjórnarstigi.“

Þetta er alveg kórrétt ábending. Og hvað segja vinir mínir í Akrahreppi? Þeir mótmæla harðlega öllum hugmyndum um lögþvingaðar sameiningar. Fljótsdalshreppur mótmælir og Svalbarðsstrandarhreppur mótmælir hugmyndum um lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga og bendir á að sjálfsákvörðunarrétturinn sé varinn í stjórnarskrá. Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps mótmælir harðlega þeim áformum sem boðuð eru. Vopnafjarðarhreppur lýsir yfir andstöðu við lagasetningu sem takmarkar sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga. Skagaströnd er á svipuðum nótum, bendir að vísu á að ef menn ætluðu að vera sjálfum sér samkvæmir ættu menn að setja lágmarkið í 8.000. Þá væri hugsanlega hægt að tala um hagkvæmni stærðarinnar. Síðan eru það vinir mínir í Grýtubakkahreppi sem hafna alfarið lögþvingaðri sameiningu sveitarfélaga. Sjálfbærni fer ekki eftir íbúafjölda eingöngu. Lýðræðisleg virkni íbúa er almennt meiri í minni sveitarfélögum, segja þeir í Grýtubakkahreppi, á Grenivík.

Minni sveitarfélög standast ný skuldaviðmið betur en þau stærri. Samkvæmt því sem hér er lagt til að sett verði í lög einhvern tímann í framtíðinni ætlar löggjafinn að leggja upp í þá vegferð að neyða Grenvíkinga til að sameinast öðru sveitarfélagi, ekki vegna þess að fjárhagsstaðan sé vond og ekki vegna þess að þjónusta sveitarfélagsins sé öll í lamasessi. Þar er fullburða þjónusta. Ég þekki aðeins til á Grenivík og verð ekki var við annað en að íbúar séu almennt ánægðir með það hvernig staðið er að verki í sveitarfélaginu.

Hvernig ætla menn að réttlæta það í þessum þingsal að taka sjálfsákvörðunarrétt af þeim sem búa á Grenivík, Skagaströnd eða í Vopnafirði? Leyfum fólki sjálfu að ráða örlögum sínum. Ég er sannfærður um að ef menn treysta fólki, ef fólki eru gefin tækifæri til að taka ákvarðanir sem skipta það máli án hótana, þvingana og ofbeldis, verður ánægjan meiri og menn komast örugglega að réttri niðurstöðu, ekki að okkar mati kannski en að mati þeirra sjálfra. Það eru íbúarnir sjálfir sem eiga að ráða.

Ég ætla ekki að ræða um hversu fráleitt það getur stundum verið, bara út frá landfræðilegum ástæðum, að þvinga fram sameiningar. Það er allt í lagi að þingheimur hafi í huga að það er ávísun á vandræði og óánægju þegar reynt er að þvinga fólk til að gera eitthvað sem það vill ekki gera. Það er hins vegar ávísun á árangur ef einstaklingarnir fá að taka sínar eigin ákvarðanir út frá eigin hagsmunum og fjölskyldna sinna. Þannig verður árangurinn bestur og þannig verður ánægjan mest.

Lofum fólki að taka ákvörðun um eigin framtíð. Ég veit að þegar til lengri tíma er litið mun það skila okkur fram á veginn. Það mun styrkja sveitarfélögin. Ég er alveg klár á því að sveitarfélögunum mun fækka en sú fækkun gerist á forsendum íbúanna sjálfra en ekki löggjafans og ekki einhverra sérfræðinga í Reykjavík. Það er allt í lagi að við í þessum þingsal og ríkisbatteríið allt, Stjórnarráðið og ríkisstofnanir, lítum aðeins til sveitarfélaganna vegna þess að í mörgu hafa sveitarfélögin á Íslandi verið til fyrirmyndar þegar kemur að árangri í rekstri. Ef nota ætti rekstrarárangur sem rök fyrir því að þvinga sveitarfélögin til sameiningar ætti að tala eitthvað um íslenska ríkið og rekstur báknsins. Þar ættum við að skoða hlutina. Ég held að við eigum frekar að sækja lærdóm til sveitarfélaganna um það hvernig við eigum að standa að verki vegna þess að þau hafa sýnt alveg ótrúlegan árangur þegar á heildina er litið og þegar kemur að rekstri og hagræðingu. Hver er hagræðingin án þess að beita ofbeldi? Sveitarfélögum hefur fækkað úr 204 árið 1990 í u.þ.b. 70 núna. Það gerðist ekki vegna þess að löggjafinn setti á þau lög. Þegar menn fara yfir lagasetningu þegar kemur að sveitarfélögunum hefur það verið útgangspunktur löggjafans, og við höfum verið sameinuð um það, allir þingmenn í gegnum síðustu áratugi, að tryggja sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna. Ef menn ætla að gera breytingu þar á er það gríðarlega stórt og alvarlegt skref. Það er skref sem ég ætla ekki að fylgja öðrum þingmönnum í. Ég mun standa gegn því að fært verði í lög að svipta íbúa sveitarfélaga sjálfsákvörðunarrétti.

Herra forseti. Máli mínu er lokið.