150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[17:11]
Horfa

Njörður Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður velti fyrir sér getu lítilla sveitarfélaga til að sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin. Ég velti fyrir mér hvort mögulega kunni viðmið um 1.000 íbúa sveitarfélögin að vera of lágt. Ég kem sjálfur úr litlu sveitarfélagi, Hveragerði, þar sem búa 2.700 manns og sit þar í sveitarstjórn. Hveragerðisbær þarf að vera í samstarfi við önnur sveitarfélög í Árnessýslu um mörg mikilvæg verkefni því að sveitarfélagið er einfaldlega ekki nógu stórt og burðugt til að geta sinnt þeim verkefnum af þeim krafti sem er nauðsynlegt. Má þar nefna brunavarnir, rekstur safna, almenningssamgöngur, málefni fatlaðs fólks, skólaþjónustu o.s.frv. Samstarf sveitarfélaga þarf þó ekki að vera neikvætt ef við horfum á það þannig. En með því að fela öðrum að sinna verkefnum verður lýðræðislegt umboð, þ.e. hin svokallaða umboðskeðja frá hinum kjörna fulltrúa til þess sem sinnir verkefninu, veikara. Ljóst er að lítið sveitarfélag sem semur við leiðandi sveitarfélög um að sinna verkefni eða er í samstarfi við önnur hefur lítið eða alla vega minna að segja um það hvernig verkefnið skuli unnið, stefnu þess o.s.frv. Það er varla tilgangur sveitarfélaga að íbúar hafi lítil sem engin áhrif á stjórn og stefnu þeirra verkefna sem sveitarfélag á að sinna. Hveragerðisbær er þó næstum því þrefalt stærri en sveitarfélag yrði ef viðmiðið yrði 1.000 íbúar. Að mínu mati er Hveragerðisbær með sína 2.700 íbúa þó of lítið til að geta sinnt þeim verkefnum sem það á að sinna.