150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[17:34]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þm. Olga Margrét Cilia sagði í ræðu sinni á undan mér. Mér finnst við hins vegar hafa lítið gert af því í þessari umræðu um hugsanlega sameiningu sveitarfélaga að líta um öxl og sjá hvernig til hefur tekist með þá sameiningu sveitarfélaga sem þegar hefur átt sér stað. Eru allir sáttir þar? Hvers vegna hefur verið ráðist í slíkar aðgerðir og hvað hefur breyst í gegnum tíðina? Hvers vegna horfumst við í augu við svo margar brothættar byggðir í dag? Hvers vegna höfum við ekkert gert í því að flytja kvótann heim? Hvers vegna settum við framsal kvóta á? Hvers vegna varð sú aðstaða leynt og ljóst til í þessum sal sem nú er í gangi eins og raun ber vitni?

Ég get tekið sem dæmi lítið sveitarfélag sem heitir Ólafsfjörður. Nú tilheyra Siglufjörður og Ólafsfjörður saman sveitarfélaginu Fjallabyggð. Það er yndislega fallegt sveitarfélag, umvafið fögrum fjöllum og frábæru fólki eins og er úti um allt land. Þegar ég flutti frá Ólafsfirði á sínum tíma bjuggu þar um 1.340 íbúar. Þar var allt iðandi af lífi. Þar var líf og fjör við höfnina hvern einasta dag, færri komust að en vildu. Það var barist um að komast í löndun. Gömlu karlarnir mættu á vogina niðri við höfn á hverjum degi þar sem þeir leystu heimsmálin. Þar voru fjölmargir togarar, frystitogarar, ísfiskarar, fullt af netabátum og millistórum bátum og alveg haugur af litlum trillum. Þar iðaði allt af lífi og þar voru tvö risastór frystihús og mörg sjóhús. Þar standa nú tugþúsundir fermetra ónýttir, ónothæfir og ónýtir. Hvers vegna? Vegna framsals kvótans, vegna afskipta ríkisvaldsins og löggjafans við að koma því formi á sem við horfumst í augu við í dag. Þetta er dæmi um það hvernig við á hinu háa Alþingi fórum í að búa til fyrstu milljarðamæringana kinnroðalaust. Nú búa 760 einstaklingar hinum megin við Héðinsfjarðargöngin, í Ólafsfirði. Íbúum hefur fækkað um næstum helming á síðustu 17 árum.

Ég hef heyrt fréttir austan af fjörðum. Ég hef heyrt hvernig staðan verður alltaf eðli málsins samkvæmt vegna þess að þjónustan getur ekki verið alls staðar í mörgum smáum sveitarfélögum sem eiga að sameinast í eitt sveitarfélag, einhvers staðar verður miðjukjarninn að vera, einhvers staðar er stjórnsýslan í sveitarfélaginu og aðalþjónustan. Á sama tíma stöndum við hér og tölum um að við eigum ekki að mismuna fólki eftir búsetu. Við eigum ekki að mismuna því í heilbrigðisþjónustu, menntakerfi eða neinu. Við stöndum samt hér og segjumst ætla að svipta þau sjálfræði og ákveða hér hverjum við steypum saman og hverjum ekki til hagræðingar.

Virðulegi forseti. Mér er misboðið þegar svona gróflega er gengið gegn lýðræðinu og sjálfræðinu í sveitarfélaginu og hvernig vilji íbúanna á þeim stöðum sem kæra sig akkúrat ekkert um þetta inngrip löggjafans verður væntanlega fótumtroðinn. Mér finnst það algjörlega síðasta sort. Það er hins vegar til fyrirmyndar ef sveitarfélögin ráða því sjálf með samtali í gegnum t.d. Eyþing og Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem fulltrúar sveitarfélaga hittast og ráða ráðum sínum. Auðvitað er sjálfsagt að fólk tali saman en númer eitt, tvö og þrjú er það íbúanna að taka ákvörðun um það í lýðræðislegum kosningum hvort þeir vilji sameiningu eða ekki, sér í lagi þegar um er að ræða sjálfbær sveitarfélög sem eru ekki að biðja um peninga til að framfleyta sér vegna þess að þau geta staðið undir rekstrinum sjálf. Hvernig í veröldinni dettur nokkrum í hug að ætla að taka sjálfstæði og sjálfræði af slíkum sveitarfélögum, hvort sem þar búa 100 eða 500 manns? Mér er algjörlega fyrirmunað að átta mig á því.

Þessi boð og bönn og sú stefna sem verið er að búa til á hinu háa Alþingi hefur einkennst af því í gegnum tíðina að segja við kjósendur og landsmenn að þeir skuli sitja og standa eins og okkur sýnist, okkur sé alveg nákvæmlega sama hvað ykkur finnist um það. Það er þannig sem mér líður gagnvart því sem við ræðum hér og nú. Það er ekki nema sjálfsagt að við fylgjum eftir og aðstoðum við sameiningu þeirra sveitarfélaga sem virkilega vilja það og hafa óskað eftir því og sjá enga aðra stöðu fyrir sig en að hagræða tilveru sinni með sameiningu. Á sama tíma segi ég enn og aftur: Það er algjörlega ólíðandi ef við ætlum að ákveða hvort sjálfbæru litlu sveitarfélagi úti á landi verði steypt saman við annað þó að það kæri sig ekkert um það. Ég virði sjálfræði og frelsi einstaklinga. Hugsið ykkur lítið sveitarfélag úti á landi þar sem allt hefur verið í blóma. Við getum litið til Færeyinga, vina okkar — það er ekki langt að líta — sem eru sjö sinnum færri en við. Þar búa hjón með börnin sín á lítilli eyju og þangað er fluttur kennari til að kenna börnunum og það þykir ekki tiltökumál. Þau börn eiga sama rétt á að læra og börnin sem búa uppi á landi, það er bara alveg sjálfsagt. En hvað gerum við hér? Ef nemendur eru orðnir örfáir í byggðarlaginu er bara sagt: Því miður, þið skuluð hætta þessu, hér verður enginn skóli. Þetta er eins og Anna litla: Engar hendur, ekkert kex. Þið verðið bara að taka ykkur saman og flytja eitthvað annað. Þið fáið enga kennslu hér, hér er enginn til að koma og kenna ykkur.

Þetta eru skilaboðin sem við erum að senda. Það er með ólíkindum. Í gegnum tíðina höfum við talað um þessa og hina reglugerðina og formlegt þetta og formlegt hitt og þetta er í 11 liðum o.s.frv. Við höfum talað saman um hitt og þetta og það er eitt, annað er að tala um raunverulega ástæðu fyrir því að hlutirnir hafa þróast í þá átt sem þeir eru að þróast í dag. Það er líka annað að tala um það hvort við getum á hinu háa Alþingi reynt að vinda ofan af þeirri óheillaþróun sem hér var komið af stað í kringum árið 1990. Getum við gert það? Væri þá ekki fyrsta skrefið til að reyna að aðstoða brothættar byggðir, lítil samfélög og lítil sveitarfélög úti á landi að skila til þeirra þeim auði sem þau byggðu framfærslu sína og lifibrauð á fyrir daga framsals á sjávarauðlindinni okkar? Hugsanlega væri það ágætisbyrjun.

Ég ætlaði ekki að hafa þetta öllu meira og segi bara að fyrst og síðast ættum við að horfa á sjálfstæði sveitarfélaganna. Við höfum hér, ríkisvaldið og Alþingi, hent í fangið á þeim alveg ótrúlegum verkefnum. Við setjum hér á skólaskyldu. Allir foreldrar verða að setja börnin sín í skóla en, æ, fyrirgefið, það er bara enginn skóli heima hjá ykkur. Það er ekki hægt að kenna ykkur hér.

Það er með ólíkindum hvernig innviðir heilsugæslunnar hafa hreinlega drabbast niður. Ákvarðanir af þessu tagi eigum við ekki að taka án þess að fólkið sem um ræðir, einstaklingarnir sem búa í þessum byggðum, hafi allt um þær að segja. Við ættum þá eingöngu að vera hér til að fylgja því eftir og aðstoða við það svo að það yrði að veruleika, hvort heldur er í áttina að því að sameina sveitarfélög, ef þau vilja það sjálf, eða halda áfram að fylgja þeim eftir af virðingu sem eru sjálfbær og geta staðið á eigin fótum. Númer eitt, tvö og þrjú væri afskaplega elskulegt ef allir hefðu aðgang að heilbrigðisþjónustu og sjúkrabílum og þyrftu ekki að liggja eins og hráviði í allt að klukkustund eftir því að fá hjálp. Það væri líka afskaplega ánægjulegt ef gatnakerfið okkar væri þannig að hægt væri að komast þokkalega á milli staða. Það vantar sannarlega mikið upp á það. Og þá ætla ég ekki að tala um væntanlegt átak í samgöngumálum þar sem borgarinn á sjálfur að borga brúsann.

Við erum að tala um sameiningu sveitarfélaga. Ég ítreka að ef þau vilja sameinast, ef íbúarnir eru sáttir við það, er það bara frábært. Ef þau eru sjálfbær og kæra sig ekki um þessa sameiningu eigum við ekki að þvinga þau til þess, enda er það lögvarinn réttur þeirra að ráða sjálf sínum málum. Þó að í 1. mgr. 77. gr. standi að þau eigi að fylgja lögum sem sett eru um þau er það svokölluð lagaáskilnaðarregla sem breytir ekki þeirri staðreynd að stjórnarskráin tryggir sjálfstæði þeirra. Það er einungis ráðherra sem hefur eftirlitsskyldu og heimild til að fylgjast með því sem þar fer fram. Við höfum enga heimild til að grípa inn í að öðru leyti.