150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[18:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni ræðuna. Ég virði það að við getum haft ólíkar skoðanir á því með hvaða hætti sé rétt að hvetja sveitarfélög til sameiningar. En það sem ég vil spyrja hv. þingmann út í er það minnisblað sem fylgt hefur tillögunni í gegnum allt ferlið, bæði umsagnaferlinu á samráðsgátt og í umsögnum til Alþingis, og er samantekt á áliti fræðimanna í lögfræði um hvað í rauninni sjálfstjórnarréttur sveitarfélaga merki í framkvæmd.

Í 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.“

Skipulagslög kveða á um það hvernig skipulag í sveitarfélögum skuli unnið og þar hafa sveitarfélögin ákveðin hlutverk. Landsskipulagsstefna er hins vegar samþykkt á Alþingi þannig að þar er ákveðið af Alþingi hvernig er farið með skipulag sveitarfélaga. Ég vil spyrja þingmanninn hvort það sé ekki einnig hans túlkun á málunum.

Í samantekt í þessu sama minnisblaði er rakin afstaða nokkurra fræðimanna um rétt löggjafarvaldsins til að breyta sveitarfélagsskipan. Þar segir:

„Eins og rekja má af niðurstöðum fræðimanna,“ — þeirra fjögurra sem vitnað er til þarna — „telja þeir vald löggjafans til að skipa málefnum sveitarfélaga annaðhvort vera rúmt, eða segja með skýrum hætti að löggjafarvaldið hafi heimild til að kveða á um skipan landsins í sveitarfélög.“

Þarna mætti samkvæmt þessu í rauninni ákvarða mörkin hér á Alþingi ef út í það færi. Er það einnig skilningur hv. þingmanns?