150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[18:44]
Horfa

Arna Lára Jónsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að lýsa ánægju minni með þessa tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023. Ég held að það sé tímabært að leggja fram svona langtímaáætlun í málefnum sveitarfélaga og mjög þarft. Mér finnst líka útgangspunkturinn í ályktuninni um að reyna að gera sveitarfélögin sjálfbærari og styrkja þau svo þau geti tekist betur á við viðfangsefni og geti þjónustað íbúana betur gríðarlega mikilvægur.

Mig langar að draga fram sérstaklega málsgrein á bls. 2 í tillögunni, með leyfi forseta:

„Sveitarfélög hafi ávallt nægilegan styrk til að takast á við áskoranir framtíðarinnar, svo sem aukna sérhæfingu, breytta aldurssamsetningu, búferlaflutninga, tæknibreytingar, þróun á sviði umhverfis- og loftslagsmála, lýðheilsumál o.fl.“

Þetta er nefnilega raunveruleikinn sem við búum við, samfélögin okkar eru alltaf að verða flóknari og flóknari og kröfurnar sem íbúar gera til sveitarfélaga um þjónustu eru líka alltaf að verða flóknari. Þess vegna er svo mikilvægt að gera sveitarfélögin í stakk búin til að takast á við þessar nýju áskoranir og þau verða að vera nógu öflug til að gera það. Íbúar sveitarfélaganna kalla líka eftir sérhæfðari þjónustu sem minni sveitarfélög geta ekki veitt ein og sér. Í þessu sambandi langar mig að nefna að ég lít svo á að það séu ákveðin mannréttindi að íbúar búi við ákveðna lágmarksþjónustu en sú er því miður ekki raunin eins og staðan er í dag. Mörg sveitarfélög geta ekki sinnt skyldum sínum og við því þarf að bregðast og við verðum að horfast í augu við það.

Ég held að íbúum sé mismunað, þeir fái ekki þá þjónustu sem þeim ber eftir því hvar þeir búa. Þetta verðum við að horfast í augu við og taka á. Ég held að þessi tillaga sé tilraun til þess og ég er mjög ánægð með þetta.

Mig langar líka að taka aðeins upp markmið nr. 3 í aðgerðaáætluninni, um tekjustofna sveitarfélaga. Tilhneigingin síðustu ár hefur svolítið verið að auka skyldur sveitarfélaga, sem þau bregðast vel við, íbúarnir vilja meiri þjónustu en tekjurnar hafa ekki alltaf fylgt með eða tekjustofnarnir. Þetta er ekki mikið útfært í markmiðunum en mig langar að nefna í umræðunni að gerð var mjög gagnleg áfangaskýrsla árið 2017 um endurskoðun á jöfnunarframlögum jöfnunarsjóðs. Ég held að það væri ágætisupplegg þegar við förum að skoða jöfnunarsjóðinn og ég fagna því innilega að það eigi að styrkja hann. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt. Sveitarfélögin hafa með Sambandi íslenskra sveitarfélaga verið í fararbroddi með að tína til nýja tekjustofna fyrir sveitarfélögin sem stjórnvöld hafa ekki alltaf verið sérstaklega tilbúin að horfa til en ég vona að með þessu markmiði verði horft til þess í næstu skrefum.

Þessi þingsályktunartillaga er í grunninn mjög góð. Þarna eru mörg markmið sem ég held að hafi ekki náð miklu flugi í umræðunni en sem eru samt sem áður gríðarlega mikilvæg eins og verkaskipting ríkis og sveitarfélaga, stafræn stjórnsýsla og starfsaðstæður kjörinna fulltrúa. Þetta hefur lítið verið rætt í umræðunni en er gríðarlega mikilvægt. Við erum svolítið föst í fyrsta markmiðinu sem er lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga. Þetta er mikið tilfinningamál fyrir marga sem er alveg skiljanlegt. Sjálf bý ég á Vestfjörðum þar sem öll sveitarfélögin nema eitt þurfa á einhverjum tímapunkti að gangast undir einhvers konar sameiningu nái markmið þessarar þingsályktunartillögu fram að ganga. Þetta hefur verið mikið hitamál í kringum mig og þegar tillagan var fyrst lögð fram var afar gaman að henda sér í heita pottinn í Bolungarvík sem ég geri mjög gjarnan af því að þetta er hluti af þeirri þjónustu sem við nýtum mjög mikið, sundlaugar, skíðasvæði og félagsþjónusta. Ég er því vel nestuð inn í umræðuna.

Það kom fram áðan hjá einum þingmanni að sveitarfélög væru samfélög. Ég er ekki sammála því. Samfélög eru eitt og sveitarfélög annað. Sveitarfélag er stjórnsýsla og samfélögin eru ein og sér. Ég bý sjálf í sameinuðu sveitarfélagi sem heitir Ísafjarðarbær, við vorum sameinuð árið 1996, en ég er sami Ísfirðingurinn eftir sem áður. Það hefur ekkert breyst og ég held fast í mína sjálfsmynd hvað það varðar. Við þurfum samt að sýna tilfinningum íbúa minni sveitarfélaga virðingu, ekki síst þeim sem eru á móti þessari lágmarksíbúafjöldatölu. Þau sjónarmið eiga svo sannarlega rétt á sér en ég vil alltaf hvetja þá íbúa sem eru ósáttir við þessar fyrirætlanir til að horfa frekar á þær út frá þjónustunni. Hvernig geta sveitarfélögin þjónustað íbúana betur? Þetta snýst ekki um hver maður er, maður getur verið sami Bolvíkingurinn þótt maður deili ákveðinni þjónustu með nágrönnunum. Ég held að það væri ágætisútgangspunktur. Með því er ég ekki að segja að við verðum öll sammála þessu en ég held að það gæti skilað ákveðnum árangri í umræðunni. Þetta er mjög heitt mál fyrir marga og þetta er líka ákveðin hræðsla við breytingar. Við þekkjum það sem við höfum en við þekkjum ekki alveg hvernig þetta verður. Við höfum heldur ekki alveg nógu góða reynslu af sameiningu sveitarfélaga. Það tókst t.d. ekki nógu vel til í mínu sveitarfélagi, í þeirri sameiningu fór margt aflaga. Ég bind þó vonir að við höfum lært af því og maður horfir auðvitað til þess módels sem er fyrir austan, að við getum lært af því. Ég þori samt að fullyrða þegar ég stend hér að þjónusta við íbúa Ísafjarðarbæjar hefur stórbatnað með sameinuðu sveitarfélagi. Ég stend alveg við það. Það er margt sem við getum lært af fyrri sameiningum en ég bind miklar vonir við að við þróum nýjar leiðir í því ef við höfum grunnmarkmiðin alveg skýr.

Ég spyr líka hvort við hefðum kannski átt að ganga lengra í þessum sameiningum. Ég held að það sé ekki endilega hollt, eins og einhver nefndi í dag, að fara í gegnum tvær sameiningar. Við eigum bara strax að setja markið hátt. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um að 1.000 sé rétta talan, en ég held að við getum alveg farið hærra eins og hér hefur verið nefnt. Ég var á þingi fyrst í haust þegar þetta var til umræðu og þá fannst mér koma fram áhugaverður punktur í nefndinni. Þar voru sveitarstjórnarmenn sem höfðu áhyggjur af því að ef þetta væru frjálsar sameiningar — það þyrfti að sameinast en það skipti ekki máli hvaða sveitarfélög sameinuðust — gætu sterkustu sveitarfélögin bara hópað sig saman, t.d. Hvalfjarðarsveit og Fljótsdalshreppur, þau sveitarfélög sem hafa virkjanir, og Akrahreppur. Þau sveitarfélög sem eru ekki jafn fjárhagslega sterk gætu orðið út undan. Ég varpa fram til umhugsunar fyrir þingmenn hvort við eigum kannski að ganga lengra og ákveða hvernig sameiningin skuli verða. Það var gert að vissu leyti á Grænlandi árið 2007. Grænlandi var skipt upp í fjögur sveitarfélög. Ég var þar á ferðalagi nokkru síðar og mér fannst þetta mjög áhugavert út frá íbúalýðræði og öllu því tali sem var þá frekar nýtt í umræðunni hér. Ég hitti sveitarstjórnarmann í Sisimiut sem er á vesturströnd Grænlands og spurði hvort það hefði verið almenn ánægja með þetta af því að þau höfðu ekkert um það að segja hvernig þetta yrði. Íbúar fengu ekki að greiða atkvæði um hugmyndirnar en hann sagði mér að íbúar hefðu verið mjög ánægðir með þetta og bara fegnir að þurfa ekki að vera með Austur-Grænlandi. Hugmynd þeirra um íbúalýðræði er kannski önnur en ég hafði í huga.

Ég geri ekki ráð fyrir að ég verði hér þegar atkvæðagreiðslan fer fram en vil að lokum hvetja þingmenn til að samþykkja þessa þingsályktunartillögu þegar þar að kemur af því að ég held að þetta sé mikið framfaramál fyrir sveitarfélögin í landinu og íbúa þeirra. Þau þurfa að fá skýrari ramma og sterkari og þurfa að vera öflugri til að takast á við framtíðaráskoranir sínar.