150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[18:54]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Örnu Láru Jónsdóttur kærlega fyrir ágætisræðu. Hún nefndi það í ræðu sinni að hún væri náttúrlega ekki sami Ísfirðingurinn og hún hefði verið fyrir mörgum árum, ég er það náttúrlega ekki heldur. En þó að ég sé kannski í grunninn núna Kópavogsbúi er ég samt svolítill Ísfirðingur í mér og fæ vonandi að vera það áfram. En það var nú ekki það sem ég ætla að ræða við þingmanninn heldur það sem hún kom inn á í ræðu sinni, hvernig íbúar mismunandi sveitarfélaga eru í raun að notfæra sér þjónustu sveitarfélaganna í kring, sem er náttúrlega mjög algengt. Til að mynda Ísfirðingar sem fara í sund í Bolungarvík og væntanlega sækja Bolvíkingar þjónustu inn á Ísafjörð og auðvitað er það bara fínt mál. Ég veit að a.m.k. mörgum Ísfirðingum hefur þótt það kyndugt að það skuli vera þörf fyrir þrjú sveitarfélög á norðanverðum Vestfjörðum. Það er svo aftur annað mál. Ég get tekið undir það með þingmanninum að kannski ættum við að taka stærra skref í þessari lotu og bjóða ekki upp á þann möguleika til að mynda, eins og þingmaðurinn ýjaði að, að menn myndu sameinast næsta sveitarfélagi heldur einhverju á allt öðrum stað sem ég held að sé ekki gott.

Það sem mig langaði að spyrja þingmanninn um í fyrra andsvari er hvort hún sjái fyrir sér einhverja tiltekna „ídeal“ stærð á sveitarfélagi. Samflokksmaður hennar, hv. þm. Njörður Sigurðsson, og ég áttum spjall um þetta áðan og væri gaman að heyra sjónarmið þingmannsins, hvort hún er með einhverja draumatölu í þessu efni.