150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[18:58]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er annað sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni áðan og það var hvernig menn halda áfram að vera Þingeyringar eða Flateyringar þó að þeir hafi gengið inn í stærra sveitarfélag. Ég held að það sé mjög mikilvægt og ég held kannski að eitt af skýrustu dæmunum um þetta sé einmitt á norðanverðum Vestfjörðum þar sem sirka helmingur, skulum við segja, Ísfirðinga skilgreinir sig annaðhvort sem Grunnvíking eða Sléttuhrepping. Eins og allir vita er ekki lengur nein byggð í þessum hreppum en þrátt fyrir það skiptast menn svolítið í þessi tvö lið. En það var ekki þetta sem ég ætlaði að spyrja hv. þingmann um í þessu andsvari heldur hitt að hún nefndi starfsaðstæður, hver endurnýjunin er í sveitarstjórnum, ég held að það hafi örugglega verið hv. þingmaður sem kom aðeins inn á þetta, og hvort hún hafi skýringu á því af hverju tölur segja okkur það að sveitarstjórnum helst verr á kvenkynsfulltrúum en karlkyns. Hefur þingmaðurinn annars vegar einhverja skýringu á þessu og hins vegar og miklu frekar einhverja lausn á þessu? Ég vil meina að það sé ákveðið mein í sveitarstjórnunum, það er eins og konur flæmist úr sveitarstjórnum af einhverjum ástæðum. Þingmenn hafa nefnt ástæður eins og starfskjör og vinnutíma o.fl. Við þurfum að ráða bót á þessu og ég er viss um að hv. þingmaður er mér sammála um það. Mig langar að heyra hvort hún hefur lausnir.