150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[19:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að lýsa yfir stuðningi við minnihlutaálit umhverfis- og samgöngunefndar um þetta mál en það nefndarálit lögðu fram hv. þingmenn Karl Gauti Hjaltason og Bergþór Ólason. Nú verð ég að viðurkenna að ég hef ekki beinlínis spurt hv. þm. Björn Leví Gunnarsson í Pírötum hvort hann hefði skrifað undir álitið ef hann væri fullgildur meðlimur í nefndinni. Hann er sem sé áheyrnarfulltrúi og getur þess vegna ekki skilað nefndaráliti úr þeirri nefnd og er það eina nefnd þingsins þar sem Píratar geta ekki skilað nefndarálitum.

Þetta nefndarálit felur í sér að 1. liður í II. kafla þingsályktunartillögunnar fellur brott en sá liður fjallar um það að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði 250 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2022 en 1.000 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2026. Þetta á við í lögþvingunarumræðunni sem hefur aðeins verið í gangi hér í dag.

Ég hef ekki neinar skoðanir á því hvort þetta eða hitt sveitarfélagið ætti að sameinast öðru eða yfir höfuð vera til. Sömuleiðis hef ég enga skoðun á því hvort þetta eða hitt sveitarfélagið ætti að vera með lágmarksíbúafjölda þótt ég myndi sjálfur almennt vilja búa í fjölmennu sveitarfélagi. Sennilega myndi ég greiða atkvæði með sameiningu ef ég byggi í mjög fámennu sveitarfélagi en það færi eftir ýmsu. Satt best að segja veit ég það ekki, virðulegi forseti, en ég veit að ég trúi á sjálfsákvörðunarréttinn og þar af leiðandi sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Ég trúi því að ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstæði sveitarfélaga eigi að þýða að Alþingi hafi ekki heimild til þess að lögþvinga í gegn eitthvað eins og lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga og neyða þannig fram sameiningar eða eitthvað þess háttar.

Það er ekki nýlunda í íslenskri pólitík að fólk sé ósammála um nákvæma lagatúlkun og oft er látið hér í þingsal eins og við séum í réttarsal að reyna að komast að því hver sé raunverulega rétt lagatúlkun út frá fordæmum Hæstaréttar eða einhverju því um líku. Að mínu mati skiptir máli að stjórnarskráin setji valdinu raunverulegar skorður sem Alþingi fer með og valdinu sem sveitarstjórnir hafa gagnvart borgurum sínum og gagnvart valdastofnunum almennt. Ég trúi þessu mjög heitt en mér þykir íslensk stjórnarskrá almennt, kannski bara íslensk lögfræði, ekki gera ráð fyrir því að slík takmörk séu virt alveg upp að því marki að þau séu til óþæginda. Það er nákvæmlega tilgangurinn með takmörkun á valdi yfirvalda, að hún valdi óþægindum þegar yfirvöld vilja gera eitthvað í trássi við óskir borgaranna. Það er heili punkturinn. Það mætti segja að fyrsta hlutverk stjórnarskrár væri að koma böndum á og takmarka vald yfirvalda, banna þeim að ráða ákveðnum hlutum.

Hér er í sjálfu sér ekki um lagatúlkunaratriði að ræða heldur pólitískt atriði. Viljum við eða viljum við ekki að sveitarstjórnir séu það sjálfstæðar að sveitarfélögin ráði því alfarið sjálf hvað þau telja heppilegan lágmarksíbúafjölda? Ég tel það vald eiga að vera hjá sveitarfélögunum eða íbúum þeirra. Ég trúi því pólitískt séð. Ef ég les gildandi stjórnarskrá og þá tillögu sem felur í sér að lögþvinga fram sameiningu eða lágmarksíbúafjölda þá fæ ég ekki séð hvernig hún myndi standast stjórnarskrá. Það er minn skilningur á lögunum. Það má vel vera að einhver sé mér ósammála og þá er það bara þannig, en burt séð frá því er þetta pólitísk afstaða. Ég trúi því ekki að yfirvöld eigi að hafa slíkan rétt. Ég trúi því ekki að yfirvöld eigi að hafa slíkt vald. Ég tel það vera of mikið vald í höndum Alþingis yfir sveitarfélögunum.

Það er allur gangur á því hvernig þjóðríki líta á einingar innan landamæra sinna. Sem dæmi eru fylki Bandaríkjanna allt annað stjórnskipulegt fyrirbæri en sveitarfélög hér og hvað þá kjördæmi. Fylkjunum svipar kannski meira til svokallaðra landa í Þýskalandi. Í grunninn er algjört lykilatriði í öllu sem ég trúi á í sambandi við stjórnarfar að valdið eigi að koma neðan frá og fara upp á við en ekki öfugt. Konungsríkið er hugsað þannig að það er guð, almætti einhvers konar, nánar tiltekið er fjallað um það að mig minnir í 13. kafla Rómverjabréfs í Nýja testamentinu, versum 1–4. Guð ákveður að einhver sé kóngur í gegnum orrustu eða örlög eða hvaðeina og það er kóngurinn sem ræður. Í sumum ríkjum hefur kóngurinn góðfúslega eða með valdabrölti heimilað íbúum að kjósa einhvers konar þing og þannig er valdið komin niður til íbúanna, frá guði til konungs og áfram niður. Arfleifð Íslands er náttúrlega þessi þegar allt kemur til alls vegna þess að stjórnarskrá okkar er arfleifð stjórnarskrárinnar sem við fengum frá konungsríkinu Danmörku.

Hin leiðin er að hugsa þetta eins og gert er í Bandaríkjunum með þeim fyrirvara að það er mjög langt frá því að vera fullkomið kerfi. Það kerfi er mjög gallað í veigamiklum atriðum að mínu mati en hugsjónin er samt sem áður sú að valdið byrji neðst og leiti upp. Það er ekkert vald þarna uppi nema það sem er samþykkt af þeim sem gáfu valdið, þ.e. almenningi sjálfum. Við eigum að nýta sveitarfélögin þannig að þau verði sjálfstæð, eins sjálfstæð og þykir yfir höfuð ganga upp. Mér finnst að þau ættu að hafa miklu meira vald yfir eigin málum. Ég verð að viðurkenna að ég er frekar opinn fyrir hugmyndum eins og þeim að sveitarfélög eða aðrar einingar lýðveldisins gætu ákveðið hluti sem við ákveðum almennt með lögum. Það er t.d. mismunandi áfengiskaupaaldur eftir fylkjum og héruðum í Kanada og Bandaríkjunum. Það er ekkert æðislega þægilegt fyrir alla, gott og vel, en þannig er það og mér finnst það skynsamlegt. Mér finnst skynsamlegt að valdi sé dreift niður á smærri einingar og það sé meira í höndum íbúanna sem búa á hverju svæði, í umboði þeirra. Ég held að það sé skynsamlegt út frá lýðræðissjónarmiðum.

Það er ekki hægt að ræða sjálfstæði sveitarfélaga án þess að ræða aðeins frumvarp um nýja stjórnarskrá. Í gildandi stjórnarskrá eru tvær setningar þar sem sveitarfélög eru nefnd. Ég get lesið þær í heild sinni á skömmum tíma, með leyfi forseta:

„Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir.“

Fleira er ekki sagt um sveitarfélög í gildandi stjórnarskrá lýðveldisins. Það vekur athygli hvernig orðalagið er, ég get ekki að lýst því öðruvísi en sem íslensku, virðulegur forseti. Það er þannig að sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. En þá er einmitt dæmigert að lagatúlkunin sé sú að svo lengi sem það eru sett lög ráði sveitarfélögin ekki neinu, það er bara Alþingi sem ræður með því að setja lög. Ég tel þá lagatúlkun, jafnvel ef hún gengur upp sem ég er ekki sannfærður um, mjög óheppilega fyrir ákvæðið. Mér finnst einfaldlega ekki nógu mikið sjálfræði fólgið í sjálfstæði sveitarfélaga sem er bundið slíkum skilyrðum og velti því fyrir mér hvað vaki fyrir fólki þegar það setur svona ákvæði ef ekki einmitt að tryggja sjálfstæði umfram það sem Alþingi getur ákveðið.

Í frumvarpi um nýja stjórnarskrá er heill kafli um sveitarfélög, nánar tiltekið fjögur ákvæði, og í nýjustu útgáfunni sem er unnin upp úr nefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá árinu 2013 eru þetta 107.–110. gr. Ég ætla ekki að lesa allar greinarnar en mér þykir rétt að nefna þær alla vega. Í 107. gr. er fjallað um sjálfstæði sveitarfélaga og í 108. gr. um nálægðarreglu, í 109. gr. um kosningu sveitarstjórna og íbúalýðræði og í 110. gr. um samráðsskyldu. Með öðrum orðum er sjálfstæði sveitarfélaganna sett í mun meiri forgang í frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár en gert er í þeirri núgildandi. Nýja stjórnarskráin er frelsisaukandi. Hún er lýðræðisaukandi. Hún er sjálfræðis- og sjálfstæðisaukandi fyrir sveitarfélög.

Ég vil einnig nefna að í 107. gr. frumvarps til nýrrar stjórnarskrár er ákvæði sem samsvarar ákvæði í 78 gr. í gildandi stjórnarskrá. Ákvæðin eru keimlík en þó er grundavallarmunur á þeim. Í 107. gr. segir, með leyfi forseta: „Sveitarfélög skulu hafa nægilega burði og tekjur til að sinna lögbundnum verkefnum.“

Það væru nú aldeilis bylting í samskiptum ríkisvaldsins og sveitarfélaganna ef það væri stjórnarskrárbundið að sveitarfélögin skyldu hafa nægilega burði og tekjur til að sinna lögbundnum verkefnum. Við hljótum öll að kannast við réttmætar kvartanir sveitarfélaganna um að á þeim hvíli skyldur, einhver verkefni sem þau eigi að leysa af hendi en svo fylgi fjármagnið ekki. Það er sífellt kvartað undan þessu og mér finnst þetta ljótt. Mér finnst að það eigi ekki að vera þannig.

Í 110. gr. um samráðsskyldu kemur fram, með leyfi forseta: „Við undirbúning laga sem með beinum hætti varða málefni sveitarfélaga skal hafa samráð við sveitarstjórnir og samtök þeirra.“

Nú er staðan í þessu þingmáli sú að það er vissulega samráð við sveitarstjórnir og samtök þeirra en mér finnst eðlilegt að það sé stjórnarskrárbundið vegna þess að ef Alþingi ætlaði að fara að taka ákvarðanir í trássi við það umboð sem kæmi frá sveitarfélögunum væri minn skilningur á því alla vega sá að slíkar ákvarðanir væru ekki í gildi ef ekki væri haft þetta samráð. Þannig finnst mér að stjórnarskrá eigi að virka. Hún á að setja raunveruleg mörk. Hún á ekki einungis að fela í sér almenn viðhorf eða beiðni um hlýhug yfirvalda til réttinda sveitarfélaga heldur á hún að ramma það inn þannig að Alþingi séu takmörk sett fyrir því hvað það má gera gagnvart sveitarfélögunum. Það að ákveða tilvist sveitarfélaga eða lágmarksíbúafjölda þeirra finnst mér vera algjörlega á forræði sveitarfélaganna sjálfra. Þannig les ég andann í það minnsta í gildandi stjórnarskrá og sjálfur myndi ég túlka lagatextann þannig en burt séð frá allri pólitík þykir mér það einnig sjálfsögð afstaða, eins og kemur skilmerkilega fram í ágætu minnihlutaáliti Miðflokksins, hv. þingmanna Karls Gauta Hjaltasonar og Bergþórs Ólasonar.

Þessi afstaða er ekki aðeins persónuleg afstaða þess sem hér stendur heldur endurspeglast hún í grunnstefnu Pírata. Grunnstefnan er sennilega eitt af því fáa sem hefur aldrei breyst hjá Pírötum og við leggjum mikið út frá henni. Í þeirri stefnu er fjallað um beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt og langar mig til að lesa það upp, með leyfi forseta:

„Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá. Réttur er tryggður með styrkingu beins lýðræðis og eflingu gegnsærrar stjórnsýslu. Píratar telja að draga þurfi úr miðstýringu valds á öllum sviðum og efla þurfi beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast.“

Það er margt í íslenskri pólitík sem er hægt að draga ályktanir út frá með því að líta til þessarar grunnstefnu. Við erum einnig með stefnu um stjórnsýslu á sveitarstjórnarstigi sem ég ætla að gera stuttlega grein fyrir þótt ég ætli ekki að lesa hana orðrétt. Þar er fjallað um lýðræðisuppgöngu. Eitthvað af því höfum við lagt fram nú þegar í formi frumvarpa, þ.e. að auka getu íbúa sveitarfélaga til að kalla eftir íbúakosningu um tiltekin mál. Í dag er það skilgreint þannig í lögum að 20% íbúa geti óskað eftir íbúakosningu um tiltekin mál en svo kemur fram í lögunum að það geti verið 20% eða hærra, sem er skrýtið og við höfum lagt til að það séu 20% eða annað, svo að sveitarfélög geti lækkað þá prósentu og haft hana 5% eða 10% eða hvað svo sem þykir við hæfi. Eflaust er sú prósenta svolítið háð stærð sveitarfélags.

Einnig er fjallað um að sveitarstjórnir ættu að geta kosið framkvæmdastjóra sveitarfélags beinni íbúakosningu, þá sem hafa oft verið kallaðir bæjarstjórar eða borgarstjórar eða hvaðeina. Sömuleiðis er fjallað um vefkerfi og nokkur tæknimál en umfram allt að unnið verði að eflingu þátttökulýðræðis og íbúasamráðs á sveitarstjórnastigi. Fjallað er um gegnsæi og að útgjöld sveitarfélaga séu opinber og aðgengileg á vefnum og síðast en ekki síst að sveitarstjórnarlögum verði breytt til að tryggja rétt íbúa til að fresta umdeildum stjórnvaldsákvörðunum sveitarfélags í framkvæmd tímabundið og vísa þeim í bindandi íbúakosningu.

Allt þetta snýr að því að auka sjálfsákvörðunarrétt íbúa sveitarfélaganna og það er viðhorfið sem við eigum að mínu mati að hafa sem leiðarljós og ekki bara þannig að við segjumst virða það, rétt eins og það að bera virðingu fyrir einhverjum snýst ekki aðeins um að þéra viðkomandi eða nota ekki fúkyrði. Virðing felst t.d. í því að hlusta á fólk þegar það talar, grípa ekki fram í fyrir því, ryðjast ekki fram fyrir það í röð og því um líkt. Þannig er virðing sýnd í verki. Það er ekki nóg að segja bara: Ég ber rosalega mikla virðingu fyrir þér, hv. þetta eða hitt — og koma síðan fram við viðkomandi af virðingarleysi, sér í lagi gagnvart sjálfsákvörðunarrétti.

Sem fyrr segir teljum við hv. 11. þm. Reykv. s., og samkvæmt mínum skilningi hv. þingmenn Karl Gauti Hjaltason og Bergþór Ólason, að í það allra minnsta sé hér hoggið mjög nálægt stjórnarskrárvörðum sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga og til vara því sem hann ætti að vera. Því legg ég til í samræmi við ágætt minnihlutaálit að þetta mál, sem er ágætt að mörgu öðru leyti, verði samþykkt með þeirri breytingu að 1. liður II. kafla falli brott.