150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[19:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil fara svolítið yfir upphafið, það sem hann byrjaði á og flestir hafa byrjað á, þ.e. lögþvingun eða ekki lögþvingun. Hann endaði líka ræðu sína á því að taka undir að það félli brott. Þegar við tölum um sjálfbærni sveitarfélaga — af því að þingmanninum varð tíðrætt um að sveitarfélögin ættu að geta stjórnað sér svolítið sjálf, sem þau gera sannarlega — langar mig að velta upp hugtakinu sjálfbærni og hvað honum hugnist í því og hvernig hann telur sveitarfélag vera sjálfbært til að geta sinnt þeim verkefnum sem því ber að gera.

Mig langar líka að velta því upp með þingmanninum, af því að ég hef haft efasemdir um lögþvingun: Er að hans mati þörf á að hafa lágmarksstærð sveitarfélags? Erum við enn þá þar að það sé í lagi að hafa 50 íbúa viðmið eða 0 eða hvernig það nú er? Um leið og sveitarfélögin kalla eftir aukinni ábyrgð á verkefnum, þau gera það, þurfum við að vera viss um að þau geti það til að ekki myndist valdaójafnvægi. Valdaójafnvægi getur nefnilega myndast í risastórum sameiningum en það getur líka myndast þegar einhver sveitarfélög sitja algjörlega eftir vegna þess þau bjóða upp á takmarkaða þjónustu af því að þau eru ekki í færum vegna smæðar sinnar og kannski margra annarra þátta. Er þörf á lágmarksstærð að mati þingmannsins?